Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirtæki í Grindavík njóta forgangs að orku framyfir álverið
Fimmtudagur 10. desember 2009 kl. 11:32

Fyrirtæki í Grindavík njóta forgangs að orku framyfir álverið


Meðalstór og smærri fyrirtæki í Grindavík munu njóta forgangs að orku í landi Grindavíkur, framyfir álverið í Helguvík, samkvæmt væntanlegu samkomulagi bæjaryfirvalda við HS Orku. „Norðurál er búið að samþykkja það og veit af því,“ segir Hörður Guðbrandsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar.

Helsta krafa Grindvíkinga í samningum við HS Orku hefur verið sú að tryggja orku til nýrra atvinnutækifæra í sveitarfélaginu. Hörður vill ekki gefa upp hversu mörg megavött er talað um í þessu sambandi enda sé ekki búið að ganga frá samkomulaginu. „Það voru svo sem nefndar tölur en ég get ekki nefnt þær á þessi stigi,“ segir Hörður. Aðspurður segir hann ekki nein sérstök virkjunarsvæði hafa verið nefnd í þessu sambandi. Eingöngu sé kveðið á um að orka frá HS Orku fari til fyrirtækja sem vilja setja upp starfsemi í Grindavík. Að sögn Harðar hafa nokkur fyrirtæki sett sig í samband við bæjaryfirvöld og óskað eftir orku og lóðum undir starfsemi sína.

Hörður var inntur nánar eftir hvað fælist samkomulaginu. Fær HS Orka t.d. ný orkumannvirki inn á skipulag sveitarfélagsins?
„Þetta er bara partur af því að landa samkomulagi við HS Orku um bæði skipulag og sameiginlega framtíðarsýn Grindavíkurbæjar og HS Orku. Við þurfum að samræma auðlindastefnu Grindavíkurbæjar og framstíðarsýn HS Orku,“ segir Hörður.
Að sögn Harðar gæti hugsanlega þurft að breyta auðlindastefnu Grindavíkurbæjar óverulega vegna þessa.
Samkomulagið hefur ekki verið undirritað en Hörður segir bæjaryfirvöld vilja ljúka málinu sem fyrst. Samningaferlið hafi bæði verið langt og strangt. „Það er er ljóst hver ágreiningurinn er þannig að það liggur þá fyrir að semja um hann. Ef það er vilji beggja megin á það ekki að þurfa langan tíma,“ segir Hörður í samtali við VF.

--

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


VFmynd/elg - Orkuver HS Orku í Svartsengi.