Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirtæki buðu til sín 25 einstaklingum með skerta starfsgetu
Halldór, Guðmundur og Amanda ásamt Kristjáni Karlssyni, starfsmanni Isavia.
Fimmtudagur 14. apríl 2016 kl. 15:41

Fyrirtæki buðu til sín 25 einstaklingum með skerta starfsgetu

- Fyrirmyndardagurinn haldinn á dögunum

Vinnumálastofnun stóð fyrir Fyrirmyndadeginum í þriðja sinn föstudaginn 8. apríl síðastliðinn. Markmið dagsins er að fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn í einn dag. 25 einstaklingar með skerta starfsgetu voru gestastarfsmenn hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum á Fyrirmyndardeginum. Að sögn Hlífar Arnbjörnsdóttur, atvinnuráðgjafa hjá Atvinnu með stuðningi, er ánægjulegt hve mörg fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í deginum. „Þegar dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2014 voru 11 einstaklingar hér á Suðurnesjum sem voru gestastarfsmenn. Í fyrra voru þeir 17 og núna 25 þannig að við erum alltaf að bæta við,“ segir hún. Nánar verður fjallað um Fyrirmyndardaginn í Sjónvarpi Víkurfrétta í kvöld.

Þau Amanda Auður Þórarinsdóttir, Guðmundur Margeirsson og Halldór Þór Finnsson voru gestastarfsmenn hjá Isavia og kynntu sér hluta starfseminnar á Keflavíkurflugvelli. Þau voru sammála um að dagurinn hefði verið skemmtilegur og lærdómsríkur. Að sögn Sóleyjar Ragnarsdóttur, starfsmannastjóra Isavia, starfa nú hjá fyrirtækinu átta starfsmenn með skerta starfsgetu. Fjórir þeirra hafa starfað hjá Isavia frá árinu 2007. Eftir Fyrirmyndardaginn í fyrra var þeim fjölgað til stendur að fjölga enn frekar fyrir mesta annatímann í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jónas Helgi Eyjólfsson, fyrrum rannsóknarlögreglumaður og yfirlögregluþjónn, var gestastarfsmaður hjá Björginni, Geðræktarmiðstöð Suðurnesja á Fyrirmyndardaginn. Jónas valdi að verja Fyrirmyndardeginum í Björginni því fyrri störf hans tengjast mikið vinnu með fólki. „Því þótti mér tilvalið að velja þennan stað. Ég er afar þakklátur starfsfólki hér fyrir hlýjar móttökur og ágætis kaffi,“ sagði hann. Jónas ræddi við starfsfólk Bjargarinnar á Fyrirmyndardeginum og kynnti sér starfsemina. Þá ræddi hann einnig við þá gesti sem komu við í Björginni þann daginn. Jónas sagði greinilegt að starfið í Björginni væri jákvætt fyrir fólk með skerta starfsgetu eða að komast aftur út í atvinnulífið.

Jónas Helgi ásamt þeim Díönu Hilmarsdóttur og Sunnu Björgu Hafsteinsdóttur hjá Björginni.

Finnbogi var gestastarfsmaður hjá veitingastaðnum Kantinum í Grindavík.

Valgeir við störf hjá N1 í Grindavík.

Sigurður við störf á hárgreiðslustofunni Rossini í Grindavík.

Kristrún kynnti sér starfsemina í Miklagarði.

Jón Marinó kynnti sér starfsemi Hópferða Baldurs. Með honum á myndinni er Margrét Arna Eggertsdóttir.

Jóhann í eldhúsinu hjá Menu á Fyrirmyndardaginn.