Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirmynd í námi fullorðinna
Þriðjudagur 30. nóvember 2010 kl. 14:33

Fyrirmynd í námi fullorðinna

Á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins síðastliðinn fimmtudag hlaut Hjördís Unnur Másdóttir viðurkenningu fyrir að hafa skarað fram úr í námi fullorðinna á árinu 2010.

Verðlaun þessi eru veitt einstaklingum sem hafa stundað nám hjá símenntunarmiðstöðvum og hafa sýnt góðan námsárangur, frumkvæði og kjark auk þessa að ná að yfirstíga ýmiskonar hindranir í námi eins og til dæmis námsörðugleika. Þessir þættir lýsa vel skólagöngu Hjördísar sem er lesblind en hefur samt á tveimur árum lokið Menntastoðum hjá MSS og Háskólabrú Keilis og er nú í Orku- og tækniskóla Keilis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjördís hætti námi á unglingsárum vegna námsörðugleika og fór út á vinnumarkaðinn. Þrátt fyrir lesblindu vann hún lengi við dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu sem opnaði augu hennar fyrir því að hún gæti vel tekið sér á hendur nám sem tæki mið af mismunandi þörfum nemenda. Fyrir valinu urðu Menntastoðir MSS og var Hjördís í fyrsta hópnum sem fór af stað í febrúar 2009.

Ekki voru þó Menntastoðir hennar fyrsta val og var hún frekar ósátt við að þurfa að taka Menntastoðir í stað þess að fara beint í Háskólabrú, eða eins og hún orðaði þetta sjálf “ ég leit á þetta sem nám fyrir þá sem voru verr staddir en ég og hefðu enga reynslu af námi en hins vegar er þetta besta ákvörðun sem ég hef tekið“. Námið kom henni á óvart og gaf henni aukið sjálfstraust og vissu um að hún gæti lært. Í dag er Hjördís í Orku- og tækniskóla Keilis og stefnir á framhaldsnám í umhverfisfræðum.


Á myndinni eru: Halldór Grönvold, formaður stjórnar FA, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóri FA, Hjörleifur Þór Hannesson umsjónarmaður Menntastoða, verðlaunahafinn Hjördís Unnur Másdóttir, Anna Lóa Ólafsdóttir námsráðgjafi MSS og Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður MSS.