Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fyrirlestur um jarðfræði og náttúruvá á Reykjanesskaga
Miðvikudagur 6. febrúar 2013 kl. 10:45

Fyrirlestur um jarðfræði og náttúruvá á Reykjanesskaga

Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, verður með erindi um jarðfræði og náttúruvá á Reykjanesskaga í dag, miðvikudaginn 6. febrúar. Fyrirlesturinn er í boði Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, og fer fram kl. 12 - 13 í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú.

Í fyrirlestrinum er farið yfir rammann að eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi og samhengið við virknina á Reykjanesskaga, einnig jarðhitann. Gerð er grein fyrir eldstöðvakerfunum fjórum og jarðsögu þeirra. Farið verður yfir helstu form þeirrar hættu sem stafar af ýmsum atburðum í náttúrunni, af völdum veðurs, hækkun sjávarborðs, jarðskjálfta og eldgosa, og loks minnst á jarðminja- og eldfjallagarða. Fyrirspurnum er svarað eftir því sem tíminn leyfir.

Ari Trausti Guðmundsson nam við Háskóla Íslands og í Osló, með áherslu á jarðeðlisfræði og jarðfræði og vann m.a. við kennslu, leiðsögn og ferðaþjónustu til 1987. Eftir það hefur hann verið sjálfstætt starfandi og til dæmis sinnt ýmiss konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, ferðaþjónustu, kynningum á vísindum, viðamiklum ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp, nú síðast haft umsjón með vinsælum þáttum um vísindi og nýsköpun hjá Sjónvarpinu. Meðal annars hefur hann leitt íslenska ferðahópa til Mongólíu, Nýja-Sjálands og Ekvador og stundað fjallamennsku, útivist og ferðalög í rúma fjóra áratugi, heima og heiman.

Erindið er öllum opið. Fólki er velkomið að taka hádegisverðinn með sér og snæða á meðan á fyrirlestrinum stendur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024