Fyrirlestraröð í Garði og Sandgerði fyrir fjölskyldur og einstaklinga á erfiðum tímum

Næstu sex fimmtudagskvöld mun kirkjan í Garði og Sandgerði í samvinnu við Sveitarfélagið Garð og Sandgerðisbæ standa fyrir fyrirlestrarröð þar sem fjallað verður um brýn mál er tengjast fjölskyldum og einstaklingum á erfiðum tímum í íslensku samfélagi. 
Fjallað verður um fjármál, næringarfræði, hvernig hægt er að drýgja matinn, um samskipti innan fjölskyldunnar og hvernig við getum styrkt og hlúð að hverju öðru á erfiðum tímum.
Fyrsti fyrirlesturinn verður fimmtudaginn 30. október kl. 20 í safnaðarheimilinu í Sandgerði, þá mun sr.Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur flytja fyrirlestur er ber yfirskriftina “Fjölskyldan og sjálfsmyndin þegar að þrengir”. Í fyrirlestrinum verður fjallað um viðbrögð fjölskyldunnar þegar tekist er á við kreppu og áfall í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna. Mikilvægt er að kynslóðirnar geti hlúð að hver annarri og varðveitt yngsta fólkið.
Fyrirlestrarnir verða haldnir til skiptis í Garði og Sandgerði. Hver fyrirlestur hefst á stuttri helgistund. Boðið verður upp á kaffi og umræður eftir hvern fyrirlestur. 
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir að kostnaðarlausu. Sérstaklega eru foreldrar og þeir sem að vinna með börnum og ungu fólki hvattir til að sækja fyrirlestrana.



 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				