Fylltu bátinn í leiðindaveðri á Breiðafirði
Línubáturinn Valdimar GK frá Vogum kom til lands í Ólafsvík á sunnudaginn í leiðindaveðri. Að sögn Vigfúsar Markússonar, skipstjóra, var þetta í annað sinn á viku sem Valdimar landar í Ólafsvík. „Við erum með fullfermi, eða 103 tonn. Vorum á veiðum vestarlega á Breiðarfirði og það í skítaveðri, en þrátt fyrir slæma veðráttu allan túrinn náðist þessi afli og er greinilega mikill fiskur á þessum slóðum,“ sagði Vigfús þegar hann kom að landi.
Löndun hófst svo úr Valdimar eftir hádegi og sá Fiskmarkaður Snæfellsness um löndun og var ekið með fiskinn suður til vinnslu.