Fyllt upp í sundlaug varnarliðsins
-Nýr yfirbyggður gervigrasvöllur opnar á Ljósanótt
Unnið hefur verið að því síðustu vikur að fylla upp í gömlu sundlaug varnarliðsins sem staðsett er í húsnæði Sporthússins á Ásbrú. Sundlaugin hefur staðið tóm og ónýtt síðan varnarliðið fór af landi brott árið 2006. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp um hvernig nýta megi húsnæðið sem sundlaugin er í. Sporthúsið í Reykjanesbæ hefur rekið líkamsræktarstöð í öðrum hluta húsnæðisins sem er áfast gömlu sundlauginni.
Sundlaug varnarliðsins var lengi vel ein stærsta innanhúss sundlaug landsins en þar voru haldin sundmót þegar ekki voru til nógu stórar innisundlaugar í landinu. Í sundlauginni var meðal annars haldið Íslandsmót árið 1998. Á þessum tíma var aðeins ein önnur innisundlaug á Íslandi sem var lögleg fyrir slík mót en hún var staðsett í Vestmannaeyjum.
Nú verður ekki synt meira í þessari sundlaug þar sem búið er að fylla í upp í hana og í staðinn verður gervigrasvelli komið fyrir, þar sem hópar og íþróttafélög geta bókað tíma, auk þess sem gervigrasvöllurinn mun nýtast annarri starfsemi Sporthússins.
Að sögn Ara Elíassonar, eiganda Sporthússins, hefur í raun aldrei staðið til að koma sundlauginni aftur í gang. „Kostnaðurinn við að reka sundlaug er mikill og er í raun er það bara á könnu sveitarfélagsins að standa í slíkum rekstri. Ekki hefur verið talin þörf á fleiri sundlaugum í sveitarfélaginu af þessari stærðargráðu og því lítið annað að gera en að fylla upp í hana,“ segir Ari. Að auki er búið að setja 2,5 metra háa batta allan hringinn umhverfis völlinn og á nú bara eftir að leggja gervigrasið sjálft en áætlað er að það komi til landsins í lok ágúst.
„Stefnan er að opna nýjan og glæsilegan gervigrasvöll á Ljósanótt, en þá eru fimm ár síðan Sporthúsið hóf þjónustu við Suðurnesjamenn í líkamsrækt en stöðin hóf starfsemi nokkrum dögum síðar, eða þann 15. september 2012. Þessi áform hafa spurst út og við erum að fá nokkrar fyrirspurnir um tíma í salnum. Ég vil bara benda áhugasömum á að hafa samband sem fyrst,“ segir Ari.