Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fylgjast með 100 gervitunglum frá Ásbrú
Fjarskiptastöðin á Ásbrú er búin sex stórum gervihnattadiskum en tveir þeirra eru í lokuðum kúlum. VF-myndir: Hilmar Bragi
Föstudagur 22. apríl 2016 kl. 09:05

Fylgjast með 100 gervitunglum frá Ásbrú

Íslenskir Aðalverktakar hf. byggja nú fjarskiptastöð á Ásbrú í Reykjanesbæ sem stjórnar um 100 gervitunglum sem hafa það verkefni að mynda jörðina. Fjarskiptastöðin er byggð fyrir Planet Labs Inc.

Planet Labs var stofnað árið 2010 af fyrrverandi vísindamönnum hjá NASA. Markmið Planet Labs er að mynda alla jörðina á hverjum degi og veita öllum þeim sem vilja, aðgang að þeim gögnum. Í dag starfa yfir 300 manns hjá fyrirtækinu, sem er með höfuðstöðvar í San Fransisco. Þjónustan sem þeir veita, getur meðal annars hjálpað til með vöktun regnskóga, sjávarlína, náttúruhamfara, gróðuráhrifa og fl., og afgreitt nýjar myndir af jörðinni með litlum fyrirvara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gervitungl fyrirtækisins eru um 4 kg þyngd og sérsmíðuð fyrir verkefnið. Planet Labs stjórnar nú stærsta einstaka hóp gervitungla sem mynda jörðina. Í dag stjórna þeir yfir 100 gervitunglum og þeirra markmið er að þessi tala verði komin í yfir 200 fyrir lok árs 2016. Til að geta tekið á móti gögnum örugglega og skilvíst, hafa þeir verið að setja upp svokölluð „Ground Stations“ eða jarðstöðvar, sem eru fjarskiptastöðvar milli þeirra og gervitunglanna. Þessar fjarskiptastöðvar hafa verið að rísa víðsvegar um heiminn, í Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Þýskalandi, Ástralíu, Bretlandi og fleiri stöðum.

Stöðin á Ásbrú verður sú tólfta sem Planet Labs reisir. Fjarskiptastöðin á Ásbrú mun jafnframt verða nyrsta og stærsta fjarskiptastöðin þeirra í dag og samanstendur af 6 gervihnattadiskum (tveim lokuðum og 4 opnum), 4 UHF loftnetum og 2 þjónustubyggingum. Fjarskiptastöðin er mannlaus staður sem er vaktaður af tæknimönnum víðs vegar um heiminn en ÍAV mun þjónusta Planet Labs hér á landi.

Íslenskir Aðalverktakar hf. eru með heildarverktöku og hafa unnið að þessu verki á öllum stigum framkvæmdarinnar í samráði við Planet Labs. Áætlaður framkvæmdarkostnaður ÍAV hf. er um 200 milljónir. ÍAV hafa í framhaldi skrifað undir þjónustusamning við Planet Labs þar sem ÍAV mun sinna mánaðarlegum skyldum og veita aðgang að þjónustuveri ÍAV sem er opið allan sólarhringinn alla daga vikunnar.