„Furðulegt að opna hótel á móti bar og kvarta svo undan honum“
„Það er ekki hægt að færa þetta hús. Ég talaði við mann sem hefur verið að gera upp og færa gömul og friðuð hús og þarna er 100 fermetra hlaðinn kjallari sem yrði að fara með húsinu. Svo er andinn líka mikilvægur og hann fylgir staðnum. Við flytjum hann ekki neitt,“ segir Björgvin Ívar Baldursson, sem hefur rekið skemmtistaðinn Paddy's undanfarnar vikur.
Eins og fram hefur komið á vef Víkurfrétta hafa nágrannar Paddy's sent bæjaryfirvöldum mótmælalista frá íbúum þar sem lagt er til að ekki verði endurnýjaður leigusamningur vegna Paddy's að Hafnargötu 38 í Keflavík. Mótmælalistinn var tekinn fyrir í bæjarráði Reykjanesbæjar fyrir helgi þegar erindi Björgvins Ívars vegna Hafnargötu 38 var til afgreiðslu. Bæjarráð hefur ákveðið að afla frekari gagna og hefur frestað afgreiðslu um framtíð Hafnargötu 38 þar til nánari upplýsingar liggja fyrir.
Meðal þeirra sem vilja reksturs Paddy's úr húsinu eru eigendur Hótel Keilis, sem staðsett er hinum megin Hafnargötunnar. „Ég veit að þau hafa legið á þeim í bæjarráði, birgjum Paddy's og öðrum. Mér finnst það mjög sorglegt að eitt fyrirtæki sem er í samkeppni við annað geti haft þau áhrif að því verði kannski lokað. Þetta er bara yfirlýst aðgerð hjá þeim á hótelinu og krossför að láta loka staðnum,“ segir Björgvin Ívar og bætir við að hann viti að til sé lögregluskýrsla sem sýni svart á hvítu 65 kvartanir vegna hávaða frá Paddy's frá árinu 2009. „Þar af voru 59 frá hótelinu og restin nafnlaus. Megnið af kvörtununum voru tilhæfulausar. Hávaðinn hefur ekki náð yfir mörk og mælingar hafa verið gerðar á því á meðan staðurinn er opinn. Það er líka mjög furðulegt að hótelið skuli ekki vera með tvöfalt gler í gluggum sem snúa að Hafnargötunni. Það hlýtur að segja sig sjálft að það þarf að vera með þrefalt gler í gluggum á hóteli í miðbæ. Svo er furðulegt að opna hótel á móti bar og kvarta svo undan honum.“ segir Björgvin Ívar.