Furða mig á að þessi undirskriftasöfnun sé tengd við mig
—segir Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavíkurkirkju. Gengið í hús í Keflavík vegna prestkostningar.
„Ég skrifaði undir þennan lista og taldi mig eftir spjallið við þennan aðila sem bankaði upp á hjá mér að ég væri að styðja séra Erlu,“ sagði kona sem vildi ekki láta nafns síns getið við VF í morgun. Nokkur sóknarbörn í Keflavíkursókn hafa síðustu daga haft samband við Víkurfréttir og lýst yfir undrun sinni og óánægju vegna söfnunar undirskrifta um prestkosningar í Keflavíkurprestakalli sem þau telja að sóknarpresturinn í Njarðvíkurkirkju standi fyrir eða komi að. Margir þeir sem hafa skrifað undir töldu sig vera að styðja við Keflavíkurkirkju og nýkjörinn sóknarprest þar sem tilefni undirskriftarlista var kynnt með þeim hætti.
Svo sem kunnugt er gengu slíkir listar fyrr í vetur en markmið þeirra var að tryggja að sr. Erla Guðmundsdóttir fengi embættið. Að öðrum kosti hefði hún ekki komið til greina í ljósi þerra reglna sem gilda á þessu sviði. Reynslumeiri umsækjandi hefði þá fengið embættið en stór hópur sóknarbarna í Keflavík taldi óvíst að sá myndi starfa í þeim anda sem gefið hefur svo góða raun í Keflavíkurkirkju. Því þótti rétt að vinna að því að fá kosningu.
Biskupsstofa hefur nú auglýst að nýju embætti prests við kirkjuna og var dóttir sr. Baldurs, María Baldursdóttir meðal umsækjenda þegar fyrst var auglýst í febrúar sl. Hún var ekki valin. Valnefnd lagði til aðra manneskju en biskup hafnaði því vali í ljósi þess að aðrir umsækjendur kynnu að vera hæfari. Biskup vitnaði til stjórnsýslulaga. Því var ákveðið að auglýsa stöðu prests aftur. Það var gert í síðustu viku.
Sóknarbörn í Keflavík sem hafa haft samband við VF telja ljóst vera að tilgangur sóknarprests Njarðvík sé að vinna að því að koma dóttur sinni að í gegnum kosningu, en þau telja engan vafa leika á því að almennar kosningar muni fæla frá hæfari umsækjendur. Þetta muni því takmarka þá kosti sem munu standa til boða. Í huga þeirra sem hafa sett sig í samband við VF telja lýðræðið ekki markmið þessara kosninga, heldur eingöngu að koma fjölskyldumeðlim sr. Baldurs að í embættið.
Þetta hefur vakið upp megna óánægju og telja þessi sóknarbörn að þetta komi til með að veikja þá þjónustu sem Keflavíkurkirkja býður upp á. Margir mjög hæfir guðfræðingar og prestar hafa lýst áhuga á embættinu nú þegar það verður auglýst að nýju. Þetta fólk muni ekki sækja um ef ákveðið verði að viðhafa kosningu. Margir treysta sér ekki í slíkt af ýmsum ástæðum.
„Ég furða mig á að þessi undirskriftasöfnun er tengd við mig. Ég var kjörin 8. maí sl. og tók þá við sem sóknarprestur. En fólk hefur komið að máli við mig síðustu daga og tjáð mér að það hafi skrifað undir mér til stuðnings. En þessir listar hafa ekkert með mig að gera. Ég veit ekki hverjir eru að safna en veit þó að það er ekki sóknarnefnd né þau sem hafa verið virk í sjálfboðaliðastarfi Keflavíkurkirkju,“ sagði Sr. Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur Keflavíkurkirkju þegar VF leitaði til hennar vegna þessarar söfnunar undirskrifta meðal sóknarbarna í Keflavík.
Biskup Íslands ásamt prestum Keflavíkursóknar á 100 ára afmæli kirkjunnar fyrr á þessu ári.