Fundu stórhættulegt dínamít við Grindavík
Lögreglunni á Suðurnesjum var í gærkvöldi tilkynnt um fund á um 20 kg. af dínamíti við Þorbjörninn í Grindavík í gærkvöld. Það voru tveir ungir menn úr Grindavík sem fundu dínamítið. Er hér um að ræða 6 stykki af rúmlega 3 kílógramma dínamítstúpum.
Ekki er vitað hvernig dínamítið komst á þessar slóðir en sprengjudeild landhelgisgæslunnar var kölluð til og fjarlægði hún efnið. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að dínamítið hafi verið farið að „svitna" vegna hitabreytinga og því verið mjög hættulegt. Lögreglan biður þá sem gætu gefið upplýsingar um dínamítið að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.
Þeir Ragnar Freyr Þórðarson og Skúli Ragnarsson úr Grindavík fundu dínamítið þegar þeir voru að kanna slóðir þar sem þeir höfðu verið að eltast við kanínur fyrir tveimur árum síðan.
Þeir Ragnar og Skúli verða í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Efri myndin: Ragnar og Súli þar sem dínamítið fannst í gærkvöldi.
Neðri myndin: Ragnar tók mynd af einni dínamíttúpunni á símann sinn. Þeir höfðu skömmu áður handleikið dínamítið án þess að vita nákvæmlega hvað þeir voru með í höndunum.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi