Fundu mikið magn af kannabis í goskæli
Mikið magn af kannabisefnum fannst í húsleit, sem lögreglan á Suðurnesjum gerði í húsnæði í umdæminu í vikunni. Efnið fannst í goskæli í bílskúr. Ýmsu dóti hafði verið raðað fyrir framan kælinn og var aðgengi að honum því þröngt. Karlmaður um þrítugt var handtekinn vegna málsins og færður á lögreglustöð þar sem skýrsla var tekin af honum. Hann var laus úr haldi að því loknu.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.