Fundu lifandi leðurblöku
„Ég sá eitthvað dökkt hangandi á einni þakeiningunni og gekk bara framhjá. Svo ákvað ég að kíkja aftur og viti menn. Þarna hékk leðurblaka og það var greinilegt að henni var skítkalt eða skíthrædd því hún hreifði sig ekki þó fleiri kæmu að og kíktu á hana,“ sagði Óskar Óskarsson, pípulagningamaður hjá Vatnsafli í Reykjanesbæ en hann ásamt fleirum var við vinnu við sundmiðstöð á Álftanesi í morgun þegar hann átti þennan óvænta fund við leðurblökuna sem alla jafna sést ekki á Íslandi.
Óskar og starfsfélagar hans Jón Bragi, Óskar og Jóhann sögðu að leðurblakan hafi verið sett í kassa og þeir hafi ákveðið að hafa samband við Fræðasetrið í Sangerði og starfsmenn þess hafi samþykkt að taka á móti þessum íslenska Batman.
Þegar fréttamenn VF komu í húsnæði Vatnsafls í Reykjanesbæ var ákveðið að skoða kvikyndið og mynda það. Eftir að hafa „setið fyrir“ hjá myndatökumönnum VF ákvað leðurblakan hins vegar að nú þyrfti hún að hreyfa sig og flaug af stað. Pípararnir lokuðu hurð og gluggum og í nokkrar mínútur flaug leðurblakan um herbergið nokkuð óreglulega en þó þannig að áhorfendur höfðu gaman af þó flestum væri ekki alveg saman um nærveru við þetta skrýtna dýr.
Leðurblakan er með um 6-7 sm. langan búk og vænghaf um 30 sm. Hún er dökkbrún á lit og hefur líklega komið með þakeiningunum sem ÍAV fengu frá Noregi. Þekkt er að leðurblökur berist með háloftavindum frá norður eða suður-Ameríku en einnig með skipum sem hafa viðdvöl hér á landi.
Síðast sáust tvær leðurblökur hér á landi í Vestmannaeyjum árið 2003 og náðist önnur þeirra. Hún endaði uppstoppuð á náttúrugripasafninu þar í bæ þar sem fyrir var önnur til sem var fönguðu þrjátíu árum áður.
Pípara-blakan er núna komin í hendur starfsmanna Fræðasetursins í Sandgerði og við fáum fréttir af því í dag hver örlög hennar verða. Líklega verða þau eins og þeirra sem fundust í Eyjum.
VefTV er einnig væntanlegt inn á vf.is með fræknu flugi leðurblökunnar. Einnig má sjá fleiri myndir í myndagalleríinu.
Íslenski batman á flugi á skrifstofu Vatnsafls í Reykjanesbæ.
Óskar Óskarssson, pípari sem fann leðurblökuna kominn með hana í kaffikönnuna þar sem hún undi sér ágætlega. Spurningin er nú hvort hellt verði upp á aftur í þessari könnu?
Pípararnir voru áhugasamir um þennan nýja vin (eða vinkonu).