Fundi sem boðaður var á Keflavíkurflugvelli aflýst á síðustu stundu
Fundi sem næstæðsti yfirmaður Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafði boðað með starfsmönnum í morgun hefur verið aflýst. Starfsmönnum barst skeyti þess efnis í gær að Kafteinn Varnarliðsins ætlaði að halda fund með starfsmönnum klukkan 10:30 í morgun. Mikill uggur er í starfsmönnum vegna uppsagna 90 starfsmanna og sagði háttsettur starfsmaður Varnarliðsins sem ekki vill láta nafns síns getið að afboðun fundarins þætti furðuleg. „Það er í fyrsta lagi óvanalegt að næstæðsti yfirmaður hersins hér á vellinum boði til fundar með starfsmönnum og það er enn furðulegra að fundurinn skuli afboðaður með svo litlum fyrirvara. Það er mikil hræðsla á meðal starfsmanna hér að eitthvað mikið sé á seyði.“