Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fundarhamarinn brotnaði í bæjarstjórn
Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari með fundarhamarinn sem gaf sig þegar forseti lamdi honum hressilega þegar hann var að útskýra fundarsköp í „óvæntu uppákomunni“.
Föstudagur 8. mars 2013 kl. 09:32

Fundarhamarinn brotnaði í bæjarstjórn

-þegar Eysteini Eyjólfssyni bæjarfulltrúa Samfylkingar í Reykjanesbæ var vísað úr pontu

Óvænt uppákoma varð á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag þegar Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar vísaði Eysteini Eyjólfssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, úr ræðustól. Ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst áður á fundi bæjarstjórnar.

Ástæðan fyrir uppákomunni var sú að forseti gerði athugasemd við það þegar Eysteinn hóf að ræða um málefni Helguvíkur en þau voru ekki á dagskrá í fundargerðum bæjarráðs sem voru til umræðu. Slíkt væri ekki heimilt samkvæmt fundarsköpum bæjarstjórnar, að fjalla um efni sem væri ekki á dagskrá. Þessu mótmælti Eysteinn og taldi slíkt oft hafa gerst áður. Böðvar sagði svo ekki vera. Eysteinn óskaði eftir fundarhléi og ræddu þá saman oddviti Samfylkingar og forseti bæjarstjórnar. Niðurstaðan var óbreytt. Málið fengi ekki að koma á dagskrá.


Síðar á fundinum í umræðum um fundargerð íþrótta- og tómstundasviðs gerði Eysteinn athugasemd við það að forseti bæjarstjórnar væri ekki hlutlaus því hann hefði gert átölulaust að Gunnar Þórarinsson, bæjarfulltrúi og formaður ráðsins, fjallaði um Nettó-mótið, þó svo það væri ekki á dagskrá fundargerðarinnar. Böðvar svaraði því til að málefni Nettó-mótsins væru öllum kunn en svo væri ekki um að ræða í þessu tilviki með málefni Helguvíkur. Síðan var einnig bent á það að í fundargerðum íþrótta -og tómstundasviðs væri verið að ræða um þakkir UMFÍ til Reykjanesbæjar vegna stuðnings við Nettó-mótið. Því færi Eysteinn ekki með rétt mál þegar hann talaði um hlutdrægni forseta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Þetta er alveg skýrt í fundarsköpunum. Mál eru ekki tekin fyrir ef þau eru ekki á dagskrá. Langflestir bæjarfulltrúar vissu ekkert um málið og því óundirbúnir að ræða það. Mér fannst þessi uppákoma mjög leiðinleg og hef aldrei lent í svona löguðu áður,“ sagði Böðvar Jónsson við VF eftir fundinn.


Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar í ræðustól. Eysteinn Eyjólfsson til hliðar. Björk Þorsteinsdóttir er á milli þeirra.