Fullorðið fólk slítur blóm úr blómakeri
Í kjölfar fréttar hér á vf.is þar sem greint var frá því að skemmdir hafi verið unnar á blómakeri framan við Sparisjóðinn í Njarðvík og höfuðstöðvar Víkurfrétta, fengu Víkurfréttir senda eftirfarandi frásögn.
„Langar að benda á eitt varðandi blómakerinn sem hafa fengið að kenna á því upp á síðkastið og langar mig að segja frá því sem ég var vitni að:
Ég var staddur í Biðskýlinu í Njarðvík um daginn og er mér litið út um gluggann og sé ég hvar kona, líklegast um þrítugt, er að slíta blóm úr kerinu fyrir framan Víkurfréttir. Ég ákvað að kanna þetta betur því ég var ekki að trúa þessu, og fer út til þess að sjá betur.
Jú, jú, mikið rétt, hún er að slíta blóm úr kerinu og safnar þeim í vönd. Ég kalla: "hvað ertu að gera?" Þegar hún heyrir þetta verður hún frekar skömmustuleg og drífur sig inn í hraðbankann þar sem förunautur hennar er að ná sér í peninga býst ég við. Hún hefur vitað upp á sig skömmina þar sem hún hafði sig alla við að reynda að fela vöndinn, en það þýddi ekkert þar sem ég horfði upp á hana slíta blómin upp. Þegar förunauturinn hafði lokið sér af í hraðbankanum fóru þau út í bíl og keyrðu í burtu og ég horði illum augum á eftir.
Ég vildi einungis deila þessu atviki því greinilegt er að ekki er eingöngu um krakka eða unglinga að ræða, líka stálpaðar stelpur/konur sem plokka blómin upp til þess að setja í vasa heima hjá sér“.
Undir þetta skrifaði góður lesandi vf.is
Mynd: Umrætt túlípanabeð. Er það fullorðna fólkið sem fer svona með eigur bæjarins.