Fullkomin aðstaða fyrir sýkingatilraunir í fiskum
Hafnar eru framkvæmdir við endurnýjun á húsnæðinu að Garðvegi 3 í Sandgerði. Núverandi hús verður rifið og nýtt hús byggt á sama grunni. Þar munu Rannsóknarstöðin á Keldum og Háskóli Íslands setja upp fullkomna rannsóknaraðstöðu fyrir sýkingartilraunir í fiskum en slík aðstaða hefur ekki verið á Íslandi áður.
Meðal annars verða sjóbúr af ýmsum stærðum, ennfremur verður rannsóknastofa, lagerrými og allskyns rými fyrir sérhæfðar rannsóknir.
Áætlað er að húsið verði komið upp í júlí og í hönnun á húsnæðinu og umhverfi þess er gert ráð fyrir að hægt verði að setja upp stóra sjótanka sjávarmegin við húsið. Við þær rannsóknir sem fram fara í húsinu þarf mikinn sjó og mun verður boruð sjóhola vestan við húsið, en nú þegar er ein hola vestan við Fræðasetrið. Talið er nauðsynlegt að hafa tvær holur þar sem mikilvægt er að ekki verði skortur á sjó þegar rannsókn er í gangi.
Það er Sandgerðisbær sem ber kostnað við byggingu Garðvegs 3 og er áætlaður kostnaður um 33 miljónir.
www.245.is greinir frá.
Ljósmynd: 245.is/Reynir Sveinsson.