Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Full heimild til að halda aukafundi og greiða fyrir fundarsetu
Þriðjudagur 9. október 2018 kl. 05:00

Full heimild til að halda aukafundi og greiða fyrir fundarsetu

- segir meirihlutinn í bæjarráði Grindavíkur

Bæjarráð Grindavíkur hefur svarað Hallfríði Hólmgrímsdóttur, bæjarfulltrúa Miðflokksins í Grindavík. Hallfríður bókaði á dögunum í bæjarstjórn þar sem hún gerði athugasemdir við aukafundi í bæjarráði sem voru kostnaðarauki fyrir Grindavíkurbæ upp á rúmar 400 þúsund krónur. „Við viljum vita af hverju það voru auka bæjarráðsfundir um þessi mál í stað þess að bæjarfulltrúar eða bæjarráð hefðu verið boðaðir í viðtöl við umsækjendur svipað og var gert í ráðningu bæjarstjórans?,“ bókar Hallfríður á síðasta fundi bæjarstjórnar Grindavíkur. 
 
Í bókun Hallfríðar segir einnig: „Bæjarfulltrúar eru á mánaðarlaunum og þurfa ekki í hvert skipti að fá greitt fyrir hvert viðvik sem er gert. Þarna voru tveir aukafundir sem við teljum að ekki hafi þurft að boða til sem er aukakostnaður upp á rúmlega 400 þúsund krónur. Ef þið ætlið að vísa í lög eða reglugerðir þá vinsamlegast nefnið hvaða lög eða reglugerð á við.“
 
Í bókun B og D lista á síðasta fundi bæjarráðs Grindavíkur segir: „Meirihluti bæjarráðs boðaði til aukafundar vegna viðtala við umsækjendur, fyrir lá að tveir sviðsstjórar höfðu sagt upp störfum og vildu hætta sem fyrst. Til að svara fyrirspurn varðandi að ekki voru birtar fundargerðir 1490 og 1491 á vef Grindavíkurbæjar átti eftir að tilkynna umsækjendum starfanna um niðurstöðu bæjarráðs. Því var beðið með birtingu. 
 
28. gr Bæjarmálasamþykktar Grindavíkur, hljóðar svo: 

Fundartími bæjarráðs. 
Bæjarráð skal að jafnaði halda fund einu sinni í viku þær vikur sem bæjarstjórn fundar ekki. Bæjarstjórn ákveður fundartíma bæjarráðs í upphafi kjörtímabils. Aukafundi skal halda ef bæjarstjóri, formaður bæjarráðs eða a.m.k. tveir bæjarráðsmenn óska þess. 
 
Samkvæmt framansögðu er full heimild til að halda aukafundi og greiða fyrir fundarsetu,“ segir í bókuninni sem fulltrúar B- og D-lista skrifa undir.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024