FS útskrift haustannar: 76 nemendur brautskráðir
Bergrún Ásbjörnsdóttir dúx haustannar 2013.
Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 21. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 76 nemendur; 65 stúdentar, níu úr verknámi og fjórir úr starfsnámi. Nokkrir útskrifuðust af tveimur brautum. Konur voru 37 og karlar 39. Alls komu 52 úr Reykjanesbæ, 8 úr Sandgerði, 7 úr Grindavík og Garði og tveir af höfuðborgarsvæðinu. Bergrún Ásbjörnsdóttir var dúx annarinnar en hún sópaði að sér verðlaunum.
Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Ísak Ernir Kristinsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ægir Sigurðsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en bjöllukór skólans lék við upphaf athafnarinnar undir stjórn Karenar Sturlaugsson. Hinrik Hafsteinsson nýstúdent lék á bassaklarinett og Sandra Rún Jónsdóttir nýstúdent á þverflautu ásamt Bjöllukórnum. Sævar Sævar Helgi Jóhannsson nýstúdent lék á píanó og Lárus Konráð Jóhannsson á rafgítar en auk þess flutti Sævar Helgi eitt lag einn síns liðs á píanóið.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Þórarinn Gunnarsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Signý Jóna Gunnarsdóttir fyrir sálfræði, Vilhjálmur Karl Ingþórsson fyrir forritun og Einar Freyr Andrésson fyrir árangur sinn í efnafræði. Hinrik Hafsteinsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda og hann fékk einnig verðlaun fyrir góðan árangur í þýsku og Ísak Ernir Kristinsson fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda auk þess að fá viðurkenningu fyrir frábæran árangur í bókfærslu. Sigurjón Freyr Viktorsson fékk verðlaun frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði og hann fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Guðrún Sigmundsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í sálfræði og uppeldisfræði og gjöf frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Mardís Ögn Birgisdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur í viðskiptagreinum og þýsku, Þórunn Helga Jóhannesdóttir fyrir sálfræði og uppeldisfræði og ensku og Ríkharður Bjarni Einarsson fyrir forritun og ensku. Svanhildur Björk Hermannsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í listgreinum, spænsku, þýsku og bókfærslu. Bergrún Ásbjörnsdóttir fékk verðlaun frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði, spænsku, ensku, íslensku og raungreinum. Hún fékk einnig gjafir frá Íslenska stærðfræðifélaginu og Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði, frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku og frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur til þess nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Bergrún Ásbjörnsdóttir styrkinn.
Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Katrín Ósk Óskarsdóttir, Margrét Rut Reynisdóttir, Markús Már Magnússon og Valdimar Ómar Heiðuson öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku. Ísak Ernir Kristinsson nýstúdent fékk svo 50.000 kr. styrk fyrir vel unnin störf í þágu nemenda og skólans.
Landsbankinn veitti nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Björn Kristinsson þær fyrir hönd bankans. Bergrún Ásbjörnsdóttir fékk verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku og hún fékk einnig verðlaun fyrir bestan árangur í stærðfræði og raungreinum. Hinrik Hafsteinsson fékk viðurkenningu fyrir besta árangurinn í erlendum tungumálum og Guðrún Sigmundsdóttir fyrir samfélagsgreinar. Bergrún Ásbjörnsdóttir fékk síðan verðlaun fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Nemendur komu líka færandi hendi en nemendur sem útskrifuðust af verknámsbraut rafvirkjunar færðu rafiðnaðardeild skemmtilega mynd frá heimsókn nemenda og kennara deildarinnar í Búrfellsvirkjun.
Að lokum sleit Kristján Ásmundsson aðstoðarskólameistari haustönn 2013.
Bergrún með foreldrum og systrum sínum en þær hafa allar orðið dúxar í FS.
Verðlaunahafar í FS á haustönn 2013.
Nemendur sem útskrifuðust af verknámsbraut rafvirkjunar færðu rafiðnaðardeild skemmtilega mynd frá heimsókn nemenda og kennara deildarinnar í Búrfellsvirkjun.
Ísak Kristinsson flutti ávarp frá nemendum.
Útskriftarnemendur glugga í prófskírteinin.
Kristján Ásmundsson, skólameistari og kennarar skólans.