FS fær aukna fjárveitingu - Staða skólans tryggð
Staða Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið tryggð eftir að menntamálaráðherra samþykkti í gær að veita skólanum fjárveitingu sem er sambærileg því sem að aðrir framhaldsskólar landsins fá.
Fyrir lá að skólinn gæti ekki haldið rekstri í sama horfi miðað við fjárveitingu úr fjarlögum án þess að fækka nemendum um 200 og einnig starfsfólki um 12-14. Kristján Ásmundsson, skólameistari FS, sagði í samtali við Víkurfréttir í október að skólinn þyrfti að fá um 70 milljóna aukafjárveitingu til að geta rekið skólann líkt og undanfarin ár.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, vakti athygli á þessum málalokum í ræðu á Alþingi á morgun. Ragnheiður hrósaði Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, fyrir að hafa tryggt stöðu FS.
„Ég vil þakka hæstvirtum ráðherra sérstaklega fyrir að höggva á hnút í þessu máli og vona svo sannarlega að þetta verði til að efla skólastarfið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tryggja þeim nemendum sem þarna um ræðir farsælan skólaferil á komandi mánuðum,“ sagði Ragnheiður.