Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

FS býður upp á Flugþjónustubraut í annað sinn
Þriðjudagur 9. ágúst 2005 kl. 19:18

FS býður upp á Flugþjónustubraut í annað sinn

Fjölbrautaskóli Suðurnesja mun bjóða upp á Flugþjónustubraut í samstarfi við IGS, Flugþjónustuna ehf. í annað sinn.  Flugþjónustubraut er starfsnámsbraut sem undirbýr nemendur fyrir vinnu við innritun og aðra þjónustu við flugfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Brautin tekur að jafnaði eina önn og er 19 einingar sem samanstendur af níu áföngum fyrir utan sjálfa starfsþjálfunina sem fer fram eftir áramót. Umsóknarfrestur er til 22. ágúst. Forkröfur eru að nemendur hafi lokið um það bil þriggja ára framhaldsnámi þegar þeir skrá sig og þurfa að vera orðnir 19 ára. Þeir umsækjendur sem hafa náð 25 ára aldri og hafa viðtæka reynslu eru hvattir til þess að sækja um þó þeir uppfylli ekki forkröfur.

Tuttugu nemendur hófu nám á Flugþjónustubraut í janúar 2005. Allir þeir sem kláruðu námið fengu vinnu hjá Flugþjónustunni. Hópurinn var mjög fjölbreyttur og sex þeirra sóttu brautina höfðu stúdentspróf auk þess sem fimmtán nemendur voru eldri en 25.

Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um tæplega 11% í júlí miðað við sama tíma að ári. Því sést mikilvægi náms sem þessa þar sem talið er að vægi ferðamannaiðnaðarins muni aukast á komandi árum.

Námið hefst 5. september og verður kennt mánudaga til fimmtudags frá kl. 17:30 - 22:00.  Bóklegu námi lýkur 9. desember.  Allar nánari upplýsingar gefur Hildur Bæringsdóttir í s. 421-3100.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024