Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

FS: 62 nemendur brautskráðir í gær
Föstudagur 21. desember 2007 kl. 10:49

FS: 62 nemendur brautskráðir í gær

Skólaslit haustannar og brautskráning Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram í gær. Að þessu sinni útskrifuðust 62 nemendur; 44 stúdentar, 9 iðnnemar, 6 úr starfsnámi, einn meistari, einn úr listnámi og einn af starfsbraut.

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Guðfinna Magnúsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í spænsku og stærðfræði og hún fékk einnig gjöf frá Verksfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. 
Svanhildur Ósk Sigurfinnsdóttir fékk einnig viðurkenningar frá skólanum og Verkfræðistofunni fyrir árangur sinn í stærðfræði. 
Anna María Ævarsdóttir fékk viðurkenningar fyrir lokaverkefni í textíl og fyrir góðan árangur í ensku.
Pétur Rúnar Guðmundsson fékk verðlaun fyrir góðan árangur á Vélstjórnarbraut 2. stig og Ásmundur Rafnar Ólafsson fyrir 1. stig á Vélstjórnarbraut. 
Guðmundur Gíslason fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í spænsku, Jenný Rut Guðjónsdóttir fyrir bókfærslu og Helgi Valdimar Viðarsson Biering fyrir sögu. 
Þau Elín Inga Ólafsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Pétur Karl Ingólfsson fengu gjöf frá skólanum fyrir störf í þágu nemenda.

Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Anna María Ævarsdóttir fékk verðlaun fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í tungumálum.  Sigurjón K. Fjeldsted fékk viðurkenningu frá Sparisjóðnum fyrir góðan árangur í iðngreinum.

Við útskriftina voru í fyrsta skipti veittir styrkir úr Styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem Gunnar Sveinsson og Kaupfélag Suðurnesja stofnuðu fyrr á þessu ári í tilefni 30 ára afmælis skólans og 60 ára afmælis Kaupfélagsins.  Það var Ragnheiður Gunnarsdóttir, dóttir Gunnars og stærðfræðikennari við skólann, sem afhenti styrkina.  Að þessu sinni var ákveðið að veita viðurkenningar fyrir góðan árangur nemenda í samskiptum og tjáningu í áfanganum SAM 106.  Það voru þau Birgir Ólafsson, Jóhanna María Kristinsdóttir og Örn Viljar Kjartansson sem fengu þessa fyrstu styrki úr sjóðnum.

VF-myndir/elg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024