Frostfrí Suðurnes með lághita úr Rockville
Fundu rúmlega 70 gráðu heitt vatn á Miðnesheiði
Borun eftir lághita við Rockville á Miðnesheiði hefur skilað góðum árangri. Þar streymir nú upp vatn sem er yfir 70 gráðu heitt. Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur hjá ÍSOR, segir holuna sem var boruð við Rockville vera mjög vel heppnaða.
Í vetur var ráðist í neyðarverkefni á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Lagt var upp með að bora þrjár djúpar tilraunaholur í leit að lághita og koma upp vara hitaveitu ef röskun verður á starfsemi hitaveitunnar í Svartsengi vegna eldsumbrota. Að borunum standa HS Orka, Ísor og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Holurnar eru svo boraðar í samstarfi Jarðborana og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða.
Í vetur var boruð hola á Njarðvíkurheiði, nálægt Stapafellsvegi. Hún er að gefa um 30 sekúndulítra af um 40 gráðu heitu vatni. Í byrjun sumars var svo ráðist í borun á Miðnesheiði við Rockville.
„Það er mjög vel heppnuð hola. Hún er að gefa um 30 sekúndulítra af yfir 70 gráðu heitu vatni. Ef holan er notuð til skamms tíma má ná mun meira magni úr henni á sekúndu,“ segir Auður Agla í samtali við Víkurfréttir.
Holan við Rockville gjörbreytir stöðunni í heitavatnsmálum á Suðurnesjum til betri vegar. Vatnið er salt og verður notað til að hita upp kalt ferskvatn. Að sögn Auðar Öglu mun það magn sem fæst úr holunni við Rockville nýtast til að halda húsum á Suðurnesjum frostfríum komi upp svipuð staða og í vetur þegar Njarðvíkuræðin brast undan hraunstraumi.
Nú á eftir að bora eina tilraunaholu til viðbótar við Vogshól áður en framhaldið verður ákveðið.
Möguleikar eru á að bora fleiri holur við Rockville og ná upp meira magni af heitu vatni þar. Það er hins vegar verkefni framtíðarinnar og er utan þess neyðarverkefnis sem almannavarnir réðust í á svæðinu.