Fróðlegur fyrirlestur á Forvarnardögum
Nemar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengu góðan gest á Forvarnardögum FS og 88 Hússins í Reykjanesbæ þegar Berent Karl Hafsteinsson kom á vegum forvarnardeildar VÍS og ræddi um ofaakstur og afleiðingar þess háttar hegðunar á Sal. Berent lenti í mótorhjólaslysi fyrir um 15 árum síðan og slasaðist alvarlega. Hann missti meðal annars fót í slysinu, en hefur verið ófeiminn síðan við að miðla af reynslu sinni í von um að ungt fólk geri sér grein fyrir alvarleika málsins.
Síðar um daginn settu Slökkvilið og lögregla á svið umferðarslys þar sem ökumaður bifreiðar slasaðist alvarlega og farþegi í bílnum lést.
Nemendur í Sam 106 í FS tóku þátt í sviðsetningunni og urðu vitni að vinnubrögðum og væntanlegum afleiðingum þess þegar slys verða í umferðinni.
Videofrétt með broti úr fyrirlestrinum og frá sviðsetningunni við 88 húsið má sjá í Vefsjónvarpi Víkurfrétta hér til hægri á síðunni.