Frítt í sund fyrir atvinnuleitendur
– Framvísa staðfestingarblaði og greiða einu sinni þúsund krónur
Atvinnuleitendur munu fá frítt í sund í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar frá 15. maí til 1. ágúst. Beiðni um frítt í sund fyrir atvinnuleitendur barst frá íbúa í Reykjanesbæ þar sem ráðið er hvatt til að veita atvinnuleitendum frítt í sund tímabundið.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar ráð tók undir erindið og fól íþrótta- og tómstundafulltrúa að skoða málið nánar. Mjög misjafnt er milli bæjarfélaga hvort boðið sé upp á frítt í sund fyrir atvinnuleitendur. Færa má veigamikil rök fyrir því í ljósi heimsfaraldurs og mikils atvinnuleysis á svæðinu að æskilegt sé að bjóða atvinnuleitendum í Reykjanesbæ frítt í sund tímabundið.
Tímabilið sem að íþrótta- og tómstundaráð leggur leggur til er 15. maí til 1. ágúst 2021, svo fremi sem samkomutakmarkanir hindri ekki framkvæmdina. Áætlaður kostnaður er 250.000 kr. og rúmast innan fjárheimilda íþrótta- og tómstundaráðs.
Um verður að ræða samstarf við Vinnumálastofnun og hefur íþrótta- og tómstundafulltrúi átt fund með forstöðumanni stofnunarinnar. Atvinnuleitendur munu geta nálgast staðfestingarblað þar og framvísað í Vatnaveröld og þurfa að greiða 1.000 kr. og fá frítt frá 15. maí til 1. ágúst nk.