Frítt í hraðhleðslu N1 í Reykjanesbæ fyrir alla
N1 hefur opnað fyrir hraðhleðslu í Reykjanesbæ þannig að íbúar geta hlaðið rafbíla sína frítt á hraðhleðslustöð félagsins. Notendur þurfa ekki að auðkenna sig við hleðslustæðin, nóg er að stinga bílnum í samband og hlaða. Um er að ræða sex hraðhleðslustæði í Reykjanesbæ.
„Við viljum koma til móts við ábendingu Almannavarna um að fólk fari sparlega með rafmagn í íbúabyggð og hlaði rafbíla frekar í hraðhleðslum á svæðinu,“ segir Ýmir Örn Finnbogason framkvæmdastjóri N1. „Þannig er dregið úr álagi á kerfinu sem er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem eru uppi og eru nógu krefjandi fyrir fjölskyldur á svæðinu. Til að einfalda þetta enn frekar fyrir notendur ákváðum við að það væri þeim að kostnaðarlausu að hlaða bílinn, svo ekki færi á milli mála að þetta væri aðgengilegt öllum.“