Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 18. september 2003 kl. 12:17

Frístundaskólinn hafinn

Rekstur frístundaskóla Reykjanesbæjar hófst formlega í öllum grunnskólunum mánudaginn 15. september sl. og lofar þátttaka góðu.  Rúmlega hundrað nemendur hafa verið skráðir og er ennþá tekið á móti umsóknum í hverjum skóla. Frístundaskólinn er nýjung í starfi Reykjanesbæjar en hann býður samfellda dagskrá fyrir börn í 1. - 4. bekk þar sem fléttað er saman íþróttaæfingu, listum, tómstundastarfi og fræðsluverkefnum ásamt næringu, heimanámi og hvíld. Gjald í frístundaskólann er kr. 7.000 á mánuði fyrir nemanda en innifalin í gjaldinu eru æfingagjöld flestra íþróttagreina hjá íþróttafélögum í Reykjanesbæ.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í frístundaskólanum sem felur m.a. í sér aðstoð við heimanám, vísindi, listir, hreyfingu og skjól. Sögustund verður í hverri viku í hverjum skóla í samvinnu við Bókasafn Reykjanesbæjar og kynnt verður fjölbreytt félagsstarf. Boðið verður upp á leikjadag í Reykjaneshöll á föstudögum og bíða nemendur nú spenntir eftir hoppuleiktækjum sem Reykjanesbær hefur nú fest kaup á og stendur nemendum frístundaskólans til boða.

Frístundaskólinn starfar í öllum grunnskólum Reykjanesbæjar en ráðnir hafa verið tveir umsjónarmenn um faglegt starf skólans auk annars starfsfólks.
Símanúmer umsjónarmanna eru: 864 6794 og 864 6795. Símatími er á þriðjudögum kl. 10:00 til 11:00.
Netfang frístundaskólans er [email protected] og hægt er að nálgast frekari upplýsingar á slóðinni reykjanesbaer.is/fristundaskoli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024