Fríhöfnin er gullegg flugvallarins
Rekstur Fríhafnarinnar skiptir gríðarlegu máli fyrir móðurfélagið Isavia og hefur gengið mjög vel. „Breytingar sem hafa verið gerðar að undanförnu hafa skilað miklum árangri og góð afkoma Fríhafnarinnar stendur undir stækkunum og breytingum á flugstöðinni. Fríhöfnin er gulleggið okkar,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Fríhöfnin hefur löngum skipað stóran sess í hjörtum flugfarþega, sérstaklega Íslendinga sem hafa verið bestu viðskiptavinir hennar frá upphafi. Aðrar þjóðir, m.a. Norðmenn, hafa tekið það upp eftir Íslendingum að bjóða upp á öfluga komuverslun þar sem farþegar geta keypt varning við heimkomu, með góðum árangri. Útlendingar sem koma til Íslands verða yfirleitt mjög hissa á hversu vegleg Duty Free verslunin er við komuna til landsins og einnig á vöruverði sem er iðulega miklu lægra en þeir sjá annars staðar.
Björn Óli segir að góð afkoma skipti ekki eingöngu miklu máli varðandi uppbyggingu flugstöðvarinnar heldur og niðurgreiði einnig farþegagjöld. Bónusinn til viðskiptavina sé frábært úrval og gott verð í versluninni.
Ekki er langt síðan að Fríhöfnin opnaði sérsaka Duty Free Iceland verslun í suðurbyggingunni og árið 2010 tók hún einnig yfir Saga Shop verslunina sem nú heitir Duty Free Fashion og var verslunarsvæði hennar stækkað og breytt. Þar var gerð áhugaverð tilraun með að leggja meiri áherslu á framboð af fatnaði og tískuvörum frá íslenskum hönnuðum og hefur sú tilraun gengið afar vel.
Fríhöfnin á sér rúmlega hálfrar aldar sögu og vöruúrvalið þykir með því mesta sem þekkist í heiminum. Á upphafsárum verslunarinnar var eingöngu boðið upp á áfengi og tóbak og starfsmenn fyrstu árin voru aðeins fjórir. Um 140 manns starfa nú í Fríhöfninni og eru nær allir búsettir á Suðurnesjum. Fríhafnarverslanirnar í flugstöðinni eru nú sex. Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir að á undanförnum tólf mánuðum hafi öllum Fríhafnarverslununum verið breytt að einhverju leyti. Vöruúrval hefur verið aukið til muna í mörgum vöruflokkum og m.a. hafa yfir tuttugu nýjar viskítegundir bæst við úrvalið sem var fyrir. Þá sé mjög mikið úrval af léttvínum í komuversluninni og sælgætisúrvalið rómað. „Okkar markmið er að bjóða gott úrval og hagstætt verð“.
Meðal nýjunga í Fríhöfninni er að nú er hægt að gera vörupöntun í gegnum heimasíðu dutyfree.is og greiða fyrir vöruna þegar hún er sótt, hvort sem er við brottför eða komu. Meðal fleiri nýjunga má nefna rafrænt tímarit sem kom út í haust og hægt er að nálgast á heimasíðunni.
Á verslunar- og þjónustusvæðinu í flugstöðinni starfa á fimmta hundruð manns í verslunum, banka, börum og á veitingastöðum. Starfsmannafjöldi hefur aukist þar eins og annars staðar í byggingunni í takt við aukinn farþegafjölda og rekstur þessara aðila hefur batnað eftir hrun að sama skapi.
Starfsfólk Duty Free tekur vel á móti viðskiptavinum. Hér eru Oddur Friðriksson og Þorgeir Axelsson á 2. hæðinni.
d