Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Friðrik kominn heim
Friðrik heima í Lyngmóanum með Tígra. VF-mynd/dagnyhulda
Þriðjudagur 6. september 2016 kl. 10:00

Friðrik kominn heim

- Beið í fimm mánuði á Landspítalanum

„Það er mjög gott að vera kominn heim og ég er glaður að það hafi tekist að ráða hingað starfsfólk,“ segir Friðrik Guðmundsson sem hafði beðið eftir því í um fimm mánuði að snúa aftur heim til sín, á sambýli við Lyngmóa í Reykjanesbæ.

Friðrik er með sjaldgæfan erfðasjúkdóm og fékk hjartastopp í lok mars. Síðan þá hefur hann notað öndunarvél allan sólarhringinn og því þurfti að fjölga stöðugildum á sambýlinu en í vor var óljóst hvernig aukningin yrði fjármögnuð og því gat Friðrik ekki snúið aftur heim. Í byrjun júní komst svo hreyfing á málið og bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti fjárveitingu og gerir ráð fyrir að fjármagn komi frá Jöfnunarsjóði. Nú er búið að ráða fjóra nýja starfsmenn á sambýlið og hafa þeir verið í þjálfun að undanförnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Friðrik hefur dvalið á lungnadeild Landspítalans síðustu mánuði og er því búinn að kynnast starfsfólkinu þar vel og ber þeim vel söguna. Meðan á spítaladvölinni stóð tók Friðrik þátt í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi. „Ég fór mun sjaldnar út þegar ég dvaldi á spítalanum en ég geri hér heima og það var því svolítið erfitt að taka þátt í prófkjörinu. Það var þó strákur frá Rauða krossinum sem kom reglulega til mín og fór með mér út og saman sóttum við marga Píratafundi,“ segir hann.

Heimkoman langþráða var rétt fyrir Ljósanótt og því nýtti Friðrik tækifærið og sótti Hjólbörutónleikana og Með blik í auga. Á Hjólbörutónleikunum var Friðriki boðið að velja sér óskalag og valdi Leiðin okkar allra sem þekkt er með Hjálmum sem hann segir hafa hentað vel sem heimkomulag.