Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Friðjón sat sinn síðasta bæjarstjórnarfund
Friðjón Einarsson sat tæplega þrjúhundruð fundi. Hér heldur hann á nafnspjaldinu sínu sem hefur verið á borðinu hans í bæjarstjórn í tæplega fjórtán ár. VF/pket
Föstudagur 15. desember 2023 kl. 11:29

Friðjón sat sinn síðasta bæjarstjórnarfund

Sat tæplega 300 fundi á fjórtán árum – Oddvitar allra stjórnmálaflokka í Reykjanesbæ eru konur

Friðjón Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sat sinn síðasta bæjarstjórnarfund 12. desember síðastliðinn. „Þetta er orðið fínt. Nú tekur yngra fólkið við,“ sagði Friðjón sem vantaði nokkra fundi upp á að þrjúhundraðasta fundinum.

Friðjón fékk blómvönd og góðar kveðjur frá bæjarfulltrúum og bæjarstjóra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann hefur verið oddviti Samfylkingarinnar síðan 2010 sem hefur verið í meirihluta frá 2014 með Framsókn og Beinni leið.

Við brotthvarf Friðjóns mun Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, taka við sem oddviti flokksins og hún verður jafnframt forseti bæjarstjórnar. Nú um áramótin verður brotið blað í sögu bæjarstjórnar Reykjanesbæjar en þá verða oddvitar allra stjórnmálaflokka konur. Auk Guðnýjar þá er Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknar, sem verður formaður bæjarráðs, Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar, Margrét Sanders leiðir Sjálfstæðismenn og Margrét Þórarinsdóttir er oddviti Umbótar.

Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri saman komin eftir síðasta bæjarstjórnarfund Friðjóns Einarssonar sem fram fór í Stapa.
Á fundinum var ný fjárhagsáætlun samþykkt. Bæjarstjórn fundar í Stapa í Hljómahöll.
Friðjón og Kjartan Már bæjarstjóri hafa unnið náið saman frá árinu 2014.
Friðjón með hönd upprétta til samþykkis í síðasta sinn í bæjarstjórn.