Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fréttir vikunnar á VF
Sunnudagur 15. maí 2011 kl. 20:49

Fréttir vikunnar á VF

Fréttavikan á Suðurnesjum var fjörug og lífleg að vanda og nóg um að vera. Sérsveitin var kölluð til í Grindavík og Sandgerði í vikunni en einnig kom upp ammoníaksleki í slægingarþjónustu í Sandgerði. Samtök ferðaþjónustunnar lýstu yfir miklum áhyggjum vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra sem raskar flugstarfsemi og atvinnuleysi er langt fyrir ofan landsmeðaltal á svæðinu eru meðal þess sem helst var í fréttum þessa vikuna en hér förum við yfir það helsta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Mánudagur:

Slökkviliðið í Sandgerði og lögreglan á Suðurnesjum voru kölluð út upp úr klukkan hálf níu í gærkvöldi að húsi Slægingarþjónustu Suðurnesja í Sandgerði. Þar lak ammóníak af kælikerfi. Tveir slökkviliðsmenn i eiturefnabúningum fóru inn og tókst þeim að stöðva lekann. Norðanátt var þegar óhappið varð og lagði gufur því ekki yfir byggðina heldur suður með ströndinni og á haf út. Að sögn lögreglu er óljóst hversu mikið tjón varð, en talsvert af fiski var innandyra.




Leoncie: Af hverju lét guð ekki eiturgufur yfir Sandgerði

Listakonunni Leoncie, sem eitt sinn bjó í Sandgerði, virðist eitthvað í nöp við fyrrum sveitunga sína. Á fésbókarsíðu söngkonunnar má sjá að Leoncie líkar við frétt um eiturgufur í Sandgerði sem birtist á vef Víkurfrétta í gærmorgun.


Leoncie gerði meira en að „líka við“ fréttina því hún sendi póst á ritstjórn Víkurfrétta sem er eftirfarandi:


„Eiturgufur í Sandgerði. Frábært. Vesalings fiskarnir. Ég elska fiskana. Ég skil ekki af hverju guð lét ekki eiturgufuna yfir ljóta hverfið með rasistunum en það gerist næst án efa,“ segir í bréfinu frá Leoncie til Víkurfrétta í lauslegri þýðingu.

Þriðjudagur:

Sigurður Þorsteinsson kveður Keflavík

Nú er orðið ljóst að Sigurður Gunnar Þorsteinsson mun ekki endurnýja samning sinn við Körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Þessi niðurstaða var ljós í gær, eftir að samningaviðræður sem staðið hafa yfir síðustu vikur, sigldu í strand. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur tefldi fram betri samning við Sigurð og spennti bogann eftir ítrustu getu en án árangurs.

Sigurður mun því kveðja herbúðir Keflvíkinga eftir að hafa spilað með klúbbnum síðastliðin 5 tímabil. Hann kom upprunalega til Keflavíkur frá KFÍ árið 2006, þá 18 ára gamall. Hann varð Íslandsmeistari með Keflvíkingum tímabilið 2007-2008. Á yfirstöðnu tímabili var Sigurður með 15.7 stig og 7.9 fráköst að meðaltali í leik.

Miðvikudagur:

Sérsveitin kölluð til í Grindavík

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út að heimili í Grindavík um klukkan ellefu í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Vísir.is var þar einstaklingur handtekinn í tengslum við heimilisofbeldi en ekki er vitað hvort hann var með skotvopn meðferðis. Vísir.is greindi frá þessu seint í gærkvöldi.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum vildi ekki gefa upplýsingar um málið fyrr en rannsókn væri lokið. Hann á von á því að henni verði lokið um miðjan dag á morgun.

Vegfarandi á Reykjanesbrautinni sagði í samtali við Vísi að tveir sérsveitarbílar hefðu keyrt í átt að Grindavík á ógnarhraða og þá hafi nokkrir lögreglubílar einnig keyrt í áttina að Grindavík.

Fimmtudagur:



Himinhátt atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi á Suðurnesjum í apríl er himinhátt og langt fyrir ofan landsmeðaltal. Þannig voru 13,6 prósent Suðurnesjamanna án atvinnu í apríl meðal meðaltal atvinnuleysis á landsbyggðinni var 6,9 prósent og 8,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Á vef Vinnumálastofnunar má finna skýrslu um atvinnuástandið í apríl og m.a. borið saman atvinnuástandið í dag og allt aftur til ársins 2002. Þá var atvinnuleysið á Suðurnesjum 2,2 prósent. Á tímabilinu 2002-2011 var atvinnuleysi minnst árið 2006 þegar það var 1,8 prósent í apríl. Atvinnuástandið var verst í fyrra þegar 14,6 prósent Suðurnesjamanna voru án vinnu í apríl. Í ár var atvinnuleysið prósentustigi minna eða 13,6 prósent.

Föstudagur:

Alvarleg staða í ferðaþjónustu vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir miklum áhyggjum vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra sem raskar flugstarfsemi, bæði innanlands sem utan með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ferðaþjónustan er mjög viðkvæm fyrir slíkum truflunum og eru þær slæmar fyrir ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannalands. Ferðamenn forðast almennt svæði þar sem búist er við verkföllum og vinnustöðvunum.

Þetta er alvarleg staða fyrir íslenska ferðaþjónustu á sama tíma og rekstrarumhverfi fyrirtækjanna hefur stórversnað vegna olíuverðshækkana, skattahækkana og erfiðs efnahagsástands.

Samtökin hvetja samningsaðila til að gera sitt ítrasta til að ná samningum áður en í óefni er komið.

Laugardagur:

Sérsveitin í Sandgerði

Sérsveit lögreglunnar var kölluð út í Sandgerði í hádeginu í dag vegna heimiliserja. Grunur lék á að þar væri maður vopnaður hníf en að sögn lögreglu tókst allt vel til. Var einn maður handtekinn og bíður yfirheyrslu.

Einar Orri nýliði í U-21 hópnum

Keflvíkingurinn Einar Orri Einarsson er einn fjögurra nýliða í 40 manna leikmannahópi landsliðs Íslands 21 árs og yngri sem keppir á Evrópumótinu í Danmörku í sumar. Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari tilkynnti hópinn í vikunni og mun síðan velja 23 leikmenn sem hann mun fara með til Danmerkur í sumar.

Einar Orri hefur verið í byrjunarliði Keflvíkur í fyrstu þremur leikjunum og staðið sig vel.
Tveir aðrir Suðurnesjamenn, Óskar Pétursson, markvörður Grindavíkur og Jósef Kristinn Jósefsson, Grindvíkingur en atvinnumaður hjá Chernmorets eru í leikmannahópnum.