Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttavikan: Óveður, óveður, stórbruni og nærbuxnaraunir
Sunnudagur 13. febrúar 2011 kl. 14:33

Fréttavikan: Óveður, óveður, stórbruni og nærbuxnaraunir


Óveður einkenndu fréttir vikunnar á Suðurnesjum sl. viku. Þá varð stórbruni í Njarðvík þar sem eignatjón varð mikið. Geitungur heimsótti BYKO og Kristján Gunnarsson nýtur trausts stjórnar VSFK. Skoðum nokkrar fréttir vikunnar hér á vf.is.



Fréttir | 8. febrúar 2011 | 09:20:17
Geitungur kíkti í verslun Byko
Það var frekar óvanalegur kúnni sem kíkti í Byko í gærmorgun. Lítill geitungur kom inn um framdyrnar þegar Arnar Óskarsson, aðstoðar-verslunarstjóri opnaði verslunina. Hófst þá eltingaleikurinn og hafði starfsmaðurinn betur, náði honum í glas og gaf honum sykurmola að borða. Geitungurinn var það stór að Arnar taldi þetta vera drottningu en það er frekar óvenjulegt að svona dýr láti sjá sig á þessum árstíma.
[email protected]




Fréttir | 8. febrúar 2011 | 11:42:56
Kristján nýtur fyllsta trausts hjá VSFK
Bæði stjórn og varastjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis lýstu fyllsta trausti á Kristján G. Gunnarssonar formann félagsins á fundi sínum í gær. Stjórnin harmar jafnframt þá ákvörðun Kristjáns að draga sig út úr störfum fyrir Starfsgreinasambandið, ASÍ og Festu. Kristján var eindregið hvattur til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess „að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum í þágu þess, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir,“ segir enn fremur í einróma samþykkt fundarins frá í gær, sem hér fer á eftir. Frá þessu er greint á vef Starfsgreinasambandsins.

Samþykkt stjórnar og varastjórnar VSFK 7. febrúar 2011

„Í yfirlýsingu frá Kristjáni G. Gunnarssyni formanni VSFK frá 4. febrúar s.l telur hann að í umræðunni um fall Sparisjóðsins í Keflavík hafi trúverðugleiki hans sjálfs beðið hnekki. Af þeim ástæðum ákvað hann að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga sig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og í Festu - lífeyrissjóði.

Stjórn og varastjórn VSFK harmar þessa ákvörðun Kristjáns og telur að sjónarmið hans sem fram komu í yfirlýsingunni hafi orðið undir í fjölmiðlaumræðunni. Kristján hafi engu að síður ákveðið að taka á sig meiri ábyrgð en tilefnið gaf til og að hann hafi í raun axlað ábyrgð sem öðrum bar.

Það vita þeir sem vita vilja að fall Sparisjóðsins í Keflavík er ekki runnið undan stefnumörkun Kristján G. Gunnarssonar, heldur reyndi hann í samstarfi við Fjármálaeftirlitið að forða Sparisjóðnum frá falli þegar ljóst varð hvert stefndi eftir bankahrunið árið 2008 þegar aðrir yfirgáfu stjórn sjóðsins í kjölfarið. Stjórn og varastjórn VSFK lýsir þess vegna fyllsta trausti til Kristján G. Gunnarssonar og hvetur hann eindregið til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir félagið, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir.“



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fréttir | 9. febrúar 2011 | 01:48:57
Slökkvistarf við erfiðar aðstæður í Njarðvík
Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja glímir nú við mikinn eld í iðnaðarhúsnæði við Bolafót í Njarðvík. Húsið er alelda. Lögreglan á Suðurnesjum er einnig með fjölmennt lið á staðnum og þá hafa björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Suðurnes aðstoðað á vettvangi.??Tilkynnt var um eldinn á tólfta tímanum í kvöld en í húsinu eru m.a. rafmagnsverkstæði og bílaþvottastöð. Eldurinn hefur verið mestur á rafmagnsverkstæðinu. Þaðan hefur verið reynt að bjarga verðmætum og hafa slökkviliðsmenn bæði komið með sportbát og hjólhýsi út úr brennandi húsinu. Þá var fólksbíl bjargað út úr þvottastöðinni en slökkviliðsmönnum tókst að verja hana að mestu.??Þegar þessi frétt er skrifuð kl. 01 í nótt stendur slökkvistarf ennþá yfir en aðstæður á brunastað eru erfiðar og bálhvass vindur. Reykur stendur þó frá byggð.??Fleiri myndir og myndband væntanlegt með morgninum. ???Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi???




Fréttir | 9. febrúar 2011 | 16:48:55
Misstu jeppa útaf í snarbrattri hlíðinni
Þeir voru heppnir starfsmenn hjá Vodafone að það fór ekki verra þegar þeir voru á leið upp Þorbjörn þegar bíllinn rann útaf vegaslóðanum. Bíllinn var hálfur útaf með rafstöð í afturdragi en hún fór einnig af slóðanum. Grafa fór upp og sótti rafstöðina en hún var á góðri leið að taka bílinn niður hlíðina.
Starfsmennirnir sögðu að ýta væri á leiðinni til að ryðja slóðann upp hlíðina og ekkert væri hægt að gera fyrr en þeir voru á leið upp fjallið til að komast í fjarskiptabúnað sem staðsettur er á fjallinu.
VF-Myndir: Siggi Jóns



Mannlíf | 10. febrúar 2011 | 10:09:28
Dúxaði í lagadeildinni á Bifröst
Snorri Snorrason, 33 ára laganemi úr Reykjanesbæ, náði þeim frábæra árangri að vera efstur í lagadeild við útskrift viðskiptalögfræðinga á Bifröst þann 5. febrúar sl. en hann útskrifaðist með B.S. gráðu. Ennfremur var hann með efstu einkunn í grunnnáminu yfir heildina á B.S-B.A stiginu í þeim þremur deildum sem skólinn skiptist í, viðskipta-, laga-, og félagsvísindadeild.??Snorri gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og líkaði mjög vel en líkamsræktarbakterían náði honum á vissum tímapunkti. „Ég sneri mér að einkaþjálfun sem ég vann svo við næstu 10 árin,“ sagði Snorri í samtali við Víkurfréttir. „Ég hélt því þó ekki áfram til æðri menntunar og hugsaði mér til hreyfings, þegar ég fann að hin fullkomna hilla fyrir mig var ekki ennþá fundin.“??Snorri hefur ávallt haft gaman af skák og var hún leiðarvísirinn að laganáminu. „Ég man að ég sat eitt sinn á skákmóti og horfði í kringum mig. Þar voru ekkert nema lögfræðingar! Það hlaut að vera eitthvað samband þarna á milli og það er það vissulega,“ sagði Snorri aðspurður af hverju hann hefði farið í laganám. „Báðar þessar greinar byggja á rökhugsun og þekkingu á vissu grundvallarregluverki og sjónarmiðum sem skila bestu niðurstöðunni ef rétt með þær er farið. Lögfræðin hlyti því að vera eitthvað fyrir mig. Með lögum skal land byggja og það á ekki síst við nú.“??Skólaganga Snorra var nokkuð fjölbreytt en hann byrjaði ferilinn í Myllubakkaskóla og lauk grunnskólanámi í Grunnskóla Sandgerðis. Þaðan fór hann í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í kjölfarið tóku við námskeið og kúrsar í einkaþjálfun. Síðan lá leiðin upp á Bifröst í frumgreinadeildina og svo í lagadeild og nú stundar Snorri meistaranám við lagadeildina og stefnir á málflutningsréttindi.??„Vinna! Þetta er í raun ekkert annað en yfirlega og að gera sér grein fyrir því að það eru forréttindi að fá tækifæri til menntunar og að slíkt tækifæri skuli nýta til fulls,“ sagði Snorri aðspurður hver væri lykillinn að þessum árangri. „Markmiðið er ekki einkunnin í sjálfu sér, heldur að verða sem færastur í þínu fagi og skila þeirri færni til þjóðfélagsins sem veitti þér tækifærið,“ bætti hann við.??Snorri útskrifaðist með 8,8 í lokaeinkunn í lagadeildinni og hlaut rífleg peningaverðlaun frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga en þau verðlaun eru veitt þeim nema sem er með efstu einkunn yfir allar deildirnar. „Þessi einkunn er nokkuð góð miðað við það að yfirleitt er ekki gefið hærra en 9 fyrir lögfræðiverkefni og próf. Það þýddi að ég þurfti að vera nokkuð stífur á níunni eða að henni. Annars eru verðlaunin að mestu bara heiðurinn varðandi deildina sjálfa, það er heiður að fá að halda tölu við útskrift sem fellur í hlut þess sem er efstur.“??Framhaldið hjá Snorra er meistaranámið sem hann hefur þegar hafið. Í sumar mun hann að öllum líkindum fara á kúrsús hjá góðri stofu sem hefur þegar komið að máli við hann. „Kúrsús er í raun ekkert annað en mátun stofu og nema, þar sem neminn fer að vinna að lögfræðilegum undirbúningi mála fyrir stofuna.“ En hefur staðan hér á Íslandi ekkert haft áhrif á möguleikana? „Jú, að sjálfsögðu hefur það haft áhrif til þessa, en ekki má gleyma að kennarar manns eru gjarnan praktíserandi lögmenn og þeir eru fljótir að fiska þá út sem eru tilbúnir að taka á því. Það lýsir ennfremur þessum vinnumarkaði,“ sagði Snorri. „Fyrir hvað ertu þekktur? Vinnusemi og elju? Ráðinn!! Þó það sé hvergi auðvelt að fá vinnu í dag, en hvað er auðvelt? Hvað er erfitt? Hugurinn einn ákveður það.“[email protected]






Fréttir | 11. febrúar 2011 | 09:18:55

Þakplötur fuku í Reykjanesbæ og Vogum
Lögregla og björgunarsveitir á Suðurnesjum þurftu að sinna um tíu útköllum í nótt vegna veðurs. Þakplötur losnuðu í Reykjanesbæ og í Vogum. Ruslatunnur og aðrir lausamunir fuku í Reykjanesbæ. Þá fuku bifreiðar einnig til á bílastæðum. Að sögn lögreglu urðu engar meiriháttar skemmdir.
Lögreglan gerði ýmsar varúðarráðstafanir vegna veðursins strax í gærkvöldi. Lögreglumenn óku um og reyndu að tryggja að sem minnst tjón yrði.

Myndir: Björgunarsveitin Suðurnes að störfum í Keflavík í nótt. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi



Fréttir | 11. febrúar 2011 | 09:21:53
Vindhraði náði 30,4 metrum á sekúndu á Keflavíkurflugvelli
Vindhraði náði 30,4 metrum á sekúndu á Keflavíkurflugvelli í nótt og var 29 metrar á sekúndu á Reykjanesbraut nú í morgunsárið. Flugvélum á Keflavíkurflugvelli var annað hvort komið í skjól hlémegin við flugstöðina eða að vélum var snúið með nefið upp í vindinn eins og þessari flugvél á svokölluðu austursvæði Keflavíkurflugvallar við gömlu flugstöðina. Myndin var tekin í nótt áður en versta veðrið skall á. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi







Fréttir | 11. febrúar 2011 | 13:48:38

Skrifa undir samninga um kísilverksmiðju í lok næstu viku
Stefnt er að undirritun samninga vegna kísilverksmiðju í Helguvík í lok næstu viku. Þetta hafa Víkurfréttir samkvæmt áreiðanlegum heimildum. Stefnt er að framleiðslu á 50.000 tonnum af hrákísil á ári og að verksmiðjan hefji framleiðslu í ársbyrjun 2013. Byggingaframkvæmdir fara hins vegar af stað á vormánuðum.
Um er að ræða 18 milljarða kr. fjárfestingu, og er framkvæmdatíminn um tvö ár. Á byggingarstað er gert ráð fyrir um 150 manns við uppbyggingu verksmiðjunnar en tengd störf eru umtalsverð, líkt og við uppbyggingu álvers.
Unnið hefur verið að verkefninu í samstarfi Íslenska Kísilfélagsins við Reykjanesbæ, Íslandsstofu og orkufyrirtæki undanfarin fjögur ár. Um er að ræða samninga um orku, sem gerðir eru við Landsvirkjun og HS orku, fjárfestingarsamning við ríkið og nokkra samninga við Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn, m.a. um hafnarðastöðu, lóð, fasteignagjöld, hafnargjöld o.fl.





Mannlíf | 11. febrúar 2011 | 15:44:44
Læsti sig úti á nærbuxunum - „Frábært að eiga góða nágranna“

Njarðvíkingurinn Örvar Kristjánsson körfuknattleiksþjálfari hjá Fjölni komst heldur betur í hann krappan í ofsaverðrinu sem gekk yfir Suðurnesin í nótt. Hann var einn í kotinu og vaknar við læti af pallinum og sér að lokið af heita pottinum er fokið upp. Örvar hyggst þá kippa því í liðinn snöggvast, vindur sér út á nærbuxunum einum klæða og skellir lokinu á og festir niður með hellu. Þegar hann ætlar sér svo aftur inn um svefnherbergishurðina sem liggur að pallinum vildi ekki betur til en hún hafði lokast í rokinu og Örvar því læstur úti. Blaðamaður náði tali af Örvari eftir að hann hafði geint frá þessu á facebook síðu sinni við mikil viðbrögð og spurði hann út í málið en hann býr í parhúsi í Innri-Njarðvík.??„Þau þekkja mig já og eru yndislegt fólk, þau voru sem betur fer heima enda engir aukalyklar nærri en þau hlógu mikið sem og nágranninn fyrir framan sem sá mig hlaupa um á nærbuxunum um hánótt í þessu veðri,“ sagði Örvar þegar hann var spurður út í viðbrögð nágrannanna þegar hann bankaði hálfnakinn uppá hjá þeim um miðja nótt. „Það er frábært að eiga svona skilningsríka nágranna, í Bandaríkjunum yrði maður sennilega skotinn fyrir að banka svona uppá.“ Svo fór að lokum að með hjálp nágrannanna komst Örvar inn um glugga en áður hafði hann hringt á lyklasmið sem fór því miður fýluferð. „Ég borgaði lyklasmiðnum eigi að síður og er bara virkilega þakklátur að hafa komist inn og að ekki hafi verið frost úti,“ sagði Örvar og bætti því svo við að maður yrði nú að hafa húmor fyrir þessu sem og sjálfum sér. Kunnum við Örvari kærar þakkir fyrir að deila þessu skondna atviki með okkur en það yrðu sennilega ekki allir tilbúnir til þess en Örvar er jafnan þekktur fyrir að vera með húmorinn í lagi.




Fréttir | 11. febrúar 2011 | 15:52:16
Lægðirnar rifu upp tré með rótum
Þegar klukkan sló fimm í nótt mældist vindhraði 30,4 m/s á Keflavíkurflugvelli og hægt er að sjá ummerki þess á mörgum stöðum. Gott dæmi eru tré sem rifnuðu upp með rótum uppá Ásbrú en áætlað er að þessi tré hafi verið gróðursett á tímum kaldastríðsins. Þarna stóð áður kirkja varnarliðsins og höfðu þessi tré gott skjól þar til kirkjan var rifin á síðasta ári.
Annað tréð féll á þriðjudaginn þegar fyrri lægðin fór yfir Reykjanesskagann en hitt tréð féll í nótt í þeirri seinni. Meðfylgjandi myndir eru teknar af Guðmundi Halli Hallssyni, rafvirkja á síma.