Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttavikan á VF: Álver í Jesú nafni, SpKef, niðurskurður og ævintýri borðtenniskappa
Laugardagur 16. október 2010 kl. 09:30

Fréttavikan á VF: Álver í Jesú nafni, SpKef, niðurskurður og ævintýri borðtenniskappa


Í vikunni var þetta helst í fréttum á vf.is:


Fjölskylda úr Garði gefur 2 milljónir til tækjakaupa

Sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, D-deild, fékk fyrir helgi rausnarlega gjöf til tækjakaupa frá fjölskyldu í Garðinum í þakklætisskyni fyrir umhyggju, hlýhug og fagmennsku sem starfsfólkið veitti fjölskylduföðurnum og fjölskyldunni allri í líknandi meðferð á erfiðum tíma í lífi þeirra. Gjöfin hljóðaði upp á 2 milljónir króna.

„Það eru blendnar tilfinningar sem fara í gegnum huga manns er maður tekur við svona stórri gjöf. Svo kemur þakklæti og viðurkenning á því að hér hefur verið unnið frábært uppbyggingarstarf á undanförnum árum sem skilar sér svo sannarlega í þjónustu við okkar skjólstæðinga. Efst í huga er þó gleði og stolt yfir þeim forréttindum að fá að vinna með öllu því góða fólki sem hér starfar og sinnir skjólstæðingunum af fagmennsku og öryggi. Að vera sýnt slíkt þakklæti í verki veitir starfsfólkinu innblástur og kraft til að gefast ekki upp þó að á móti blási,“ segir Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri sjúkradeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir.




Í Jesú nafni verður að flýta byggingu álvers

Sóknarpresturinn í Útskálakirkju hefur í Jesú nafni biðlað til stjórnvalda að greiða götu álvers í Helguvík. Lét presturinn þau ummæli falla í messu í morgun og lét ekki þar við sitja heldur gagnrýndi stjórnvöld fyrir öfgafullan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Það er Eyjan.is sem greinir frá þessu.

Messaði sóknarpresturinn, Sigurður Grétar Sigurðsson, í morgun og var messu hans útvarpað á Rás 1. Fór Sigurður mikinn og bað stjórnvöld að flýta og greiða fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í nafni Jesú en Útskálakirkja er á Suðurnesjum.

Undraðist Sigurður ýmislegt sem stjórnvöld hafa á borði sínu og talaði um undarlegar tafir á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjunum. Þá lét hann stjórnvöld heyra það fyrir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og benti á að atvinnuleysi væri mikið á Suðurnesjum og uppsagnir þar gerðu illt verra.



Krefst áframhaldandi reksturs Ragnarssels


Bæjarstjórn Garðs lýsir yfir vonbrigðum að Ragnarsseli hafi ekki verið tryggt fjármagn til rekstrar á næsta ári. Í ályktun frá fundi bæjarstjórnar fyrir helgi segir að niðurskurður til reksturs Ragnarsels sé vegna niðurskurðar til Svæðisskrifstofu Reykjaness sem tekið hafi ákvörðun um lokun þjónustunnar.
„Við tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar nk. er því ekki gert ráð fyrir rekstri Ragnarsels. Það er óásættanlegt fyrir fjölmarga fatlaða íbúa á Suðurnesjum og fjölskyldur þeirra. Þroskahjálp á Suðurnesjum hefur haldið úti rekstri Ragnarsels í 27 ár og yfir vetrarmánuðina nýta 16 fatlaðir einstaklingar vistun á stofnuninni og yfir sumartímann a.m.k. 40 einstaklingar. Bæjarstjórn Garðs krefst þess að við yfirfærslu á málefnum fatlaðra til Suðurnesja verði áframhaldandi rekstur Ragnarssels tryggður,“ segir í bókun bæjarstjórnar.



32 þingmenn styðja frumvarp um aðkomu ríkisins


32 þingmenn standa að baki frumvarpi sem veita myndi ríkissjóði heimild til að taka þátt í kostnaði vegna hafnarframkvæmda í Helguvík. Auk allra þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar styða sex þingmenn Samfylkingar frumvarpið og einn úr Hreyfingunni.

Sem kunnugt er töldu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ríkið hafa gefið loforð þess efnis að það kæmi að framkvæmdunum með fjármuni. Síðasti samgönguráðherra, Kristján Möller, sagði hins vegar engin gögn finnast um slíkt í ráðuneytinu. Þessir aðilar tókust á um málið í fjölmiðum nú í byrjun hausts.

Morgunblaðið hefur eftir Ögmundi Jónassyni, núverandi Samgönguráðherra, að framkvæmdir við Helguvíkurhöfn þurfi ekki að tengjast byggingu álvers í Helguvík. Hann segir jafnframt að eins og staðan sé hjá ríkinu sé ekki hægt að reiða fram 700 milljónir í skyndi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Málverkasala skilaði 355.000 kr. í velferðarsjóð

Lionessuklúbbur Keflavíkur hefur afhent Velferðarsjóði Suðurnesja söfnunarfé sem fékkst með því að selja málverk á Ljósanótt. Söfnunarféð var 355.524 krónur en því söfnuðu Lionessur með því að selja listaverk Elínrósar Eyjólfsdóttur, sem hún hafði gefið klúbbnum til fjáröflunar.
Á meðfylgjandi mynd afhendir Magnúsína Guðmundsdóttir Hjördísi Kristinsdóttur umsjónarmanni Keflavíkurkirkju og stjórnarmanni í Velferðarsjóðnum fjárhæðina.


Reykjanesbær tekur ný lán í stað eldri

Lánasjóður sveitarfélaga hefur veitt Reykjanesbæ nýtt 14 ára lán til þess að greiða höfuðstól eldra láns á gjalddaga. Samkvæmt ársuppgjöri Lánasjóðsins fyrir síðasta ár var skuld Reykjanesbæjar við sjóðinn rúmlega 2,5 milljarðar króna. Frá þessu er greint á mbl.is.

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar fyrir helgi var skýrt frá beiðni til sjóðsins þess efnis að afborgunum lána, utan vaxta, yrði frestað á þessu ári og því næsta. Erindinu hafi verið „svarað jákvætt“.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðsins, segir í samtali við mbls.is að þetta sé rétt. „Hér er ekki um frestun að ræða, heldur nýtt lán til að endurfjármagna eldra lán.“ Óttar segir Lánasjóðinn hafa endurfjármagnað töluvert af lánum sveitarfélaga.




Undirbúa Samtök stofnfjáreigenda í SPKEF

Undirbúningur er hafinn að stofnun Samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík SPKEF og hefur verið ákveðið að halda fund í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 21. október nk. kl. 18:00.

Samtök stofnfjáreigenda verða grasrótarsamtök og tilgangurinn með þeim er að vinna að helstu hagsmunamálum stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík SPKEF.

„Stofnfjáreigendur eru harmi slegnir yfir falli bankans, í fyrsta lagi vegna mikils fjárhagslegs tjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Í öðru lagi að bankinn hafi hugsanlega misst fjárhagslega getu sína til að styðja áfram dyggilega við atvinnu-, íþrótta-, menningar- og menntamál hér á Suðunesjum, það sem bankinn hafði áður gert svo vel.

Margir Suðurnesjamenn hafa allt frá barnsaldri lagt inn sína fyrstu krónu í bankann og sýnt honum mikið traust. Það er því mikið áfall að bankanum hafi ekki vera stjórnað betur. Ýmislegt hefur verið að koma í ljós varðandi rekstur bankans sem krefst frekari athugunar. Fyrrverandi stjórn bankans og sparisjóðsstjóra verður boðið að mæta á fundinn til að kynna stofnfjáreigendum hvað það var sem leiddi til falls bankans. Grundvöllur kröfulýsinga í SPKEF verður kynntur og ræddur á fundinum en kröfum í búið þarf að skila inn fyrir 5. des næstkomandi. Möguleg skaðabótamál á hendur stjórnendum Sparisjóðsins í Keflavík verða kynnt og rædd.

Sveinn Margeirsson frá Félagi stofnfjáreigenda í BYR verður með erindi og á mælendaskrá verður fólk úr slitastjórn gamla bankans. Áhugi fólks á að stofna svona félag verður tekin til umræðu og ef það er vilji fólks þá verður kosið í stjórn þess. Þeir sem hafa áhuga að vinna með eða gefa kost á sér í stjórn eru vinsamlega beðnir um að láta vita af sér í byrjun fundar. Með von um góða mætingu á fundinn,“ segir í tilkynningu frá undirbúningsnefnd.



SSS mótmælir niðurskurði

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mótmælir harðlega fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu á Suðunesjum.  Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2011 á að lækka framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um rúmar 400 milljónir. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi SSS í gær.

„Verði þetta niðurstaðan mun  niðurskurðurinn leiða til þess að fæðingarþjónusta verður aflögð, almennar lyflækningar og þjónusta við krabbameinssjúklinga flyst til Reykjavíkur, endurhæfing mun að mestu leyti leggjast af og dregið verður úr líknandi meðferð.  Þjónustu við aldraða skerðist einnig töluvertog slysa- og  bráðaþjónusta mun flytjast til Reykjavíkur í meira mæli. Kemur þetta til viðbótar við þann niðurskurð sem átti sér stað í ár er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja lokaði skurðstofum sínum.  Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja umrædda nærþjónustu til höfuðborgarsvæðisins þegar sýnt hefur verið fram á, að þessir þættir eru hagkvæmar reknir af HSS en LSH.

Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið og eru enn lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nálægð stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar.  Stjórn S.S.S. skorar á þingmenn og ríkisstjórn Íslands að gæta jafnræðis og sanngirni í framlögum á fjárlögum.

Í stefnuræðu forsætisráðherra voru höfð skýr orð um vilja stjórnvalda til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af efnahagskreppu og atvinnuleysi.  Hér er tækifæri til að láta athafnir fylgja orðum.

Stjórn S.S.S. treystir á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika enda hefur komið fram vilji þingmanna og ráðherra til þess að endurskoða umræddar tillögur,“ segir í bókun SSS.



Fastur á hótelherbergi í tvo sólarhringa og bílaleigubíllinn á kafi í vatni

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson lenti í hremmingum á dögunum í Slóveníu þegar hann var þar við æfingar fyrir heimsmeistaramótið í borðtennis sem fram fer í Suður-Kóreu síðar í mánuðinum.

Miklir vatnavextir urðu í á sem rennur framhjá hóteli Jóhanns. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa horft á ána vaxa um 5-6 metra og verða að beljandi fljóti sem m.a. hafi skollið á hótelinu þar sem hann gisti. Bílakjallari hótelsins fylltist af vatni og bílaleigubíll Jóhanns fór á kaf í flóðvatnið. Lyftugöng hótelsins urðu einnig umflotin vatni og því var Jóhann fastur á 2. hæð hótelsins í tvo sólarhringa ásamt 22 öðrum mönnum sem eru bundnir við hjólastóla.

Jóhann segir lífsreynsluna vera óþægilega og það að vera fastur á 2. hæð hótelsins hafi verið erfitt. Þannig hafi hann og félagar hans ekki komist í matsal hótelsins og því hafi starfsfólkið þurft að koma með allar máltíðir inn á herbergin.
Í ferðinni til Slóveníu hafi Jóhann spilað borðtennis í æfingabúðum við þá sem skipa 1. til 5. sætið á heimslistanum í sínum flokki. Jóhann er einmitt á förum til Suður-Kóreu á miðvikudag í næstu viku til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í borðtennis. Átján bestu borðtennisspilarar heims í hans styrkleikaflokki etja þar kappi saman og var Jóhann Rúnar 14. inn á mótið.

Hann sagðist fullur tilhlökkunar. Hann hafi hins vegar ekki hugmynd um hvaða mótherja hann fái en hann á von á að þessum 18 spilurum verði skipt upp í sex riðla. Jóhann vonast eftir góðu dagsformi og sagðist vera vel undirbúinn fyrir mótið. Undirbúningurinn hafi verið öðurvísi nú en oft áður og hann á allt eins von á því að geta komið mótherjum sínum verulega á óvart.


Aukin bjartsýni vegna álvers í Helguvík

Margt hefur áunnist síðan iðnaðarráðherra boðaði aðila sem koma að atvinnuuppbyggingu í Helguvík á sinn fund í lok ágúst. Leitað hefur verið leiða til að ryðja fjölmörgum hindrunum úr vegi og eftir fund sömu aðila í dag segist Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði bjartsýnni en áður á framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík. Í samtali við mbl.is í dag segir Ásmundur að Norðurál sé nú reiðubúið að einbeita sér að fyrstu 3 áföngunum við byggingu álversins, sem eykur líkur á framgangi verkefnisins.


Ásmundur segir að margar jákvæðar upplýsingar hafi komið fram á fundinum. Skipulagsmál sveitarfélaganna á Reykjanesi, sem hafa flækt málið, eru nú að komast fyrir vind, að sögn hans. Jákvæðar upplýsingar liggi líka fyrir um orkukosti á Reykjanesi.

Að sögn hans er mjög ánægjulegt að Norðurál skuli nú vera tilbúið að einbeita sér að því að ljúka fyrstu þremur áföngunum við byggingu álvers í Helguvík í stað þess að setja fram kröfur um fjóra áfanga. Auðveldara sé að tryggja álverinu raforku en orkuþörfin eftir að fyrstu þrír áfangar álversins í Helguvík verða að veruleika yrði um það bil 450 MW eða um 150 MW fyrir hvern áfanga.


Uppbyggingin gæti staðið yfir í sex til tíu ár. „Allan þann tíma erum við að tala um 2000 störf við þessa uppbyggingu. Það er því griðarlega mikilvægt að koma þessu verkefni í gang. Það er verkefni okkar núna. Ég er bjartsýnni eftir þennan fund en áður,“ segir Ásmundur.