Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttablaðið: Reykjanesbær og Hafnarfjörður ætla sér að kaupa Hitaveitu Suðurnesja
Laugardagur 30. júní 2007 kl. 01:57

Fréttablaðið: Reykjanesbær og Hafnarfjörður ætla sér að kaupa Hitaveitu Suðurnesja

Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær ætla að nýta forkaupsrétt sinn á fimmtán prósenta hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag, laugardag. Nær öruggt þykir að sveitarfélögin tvö kaupi einnig 28 prósenta hlut sjö annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum og Suðurlandi sem fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy samdi um kaup á í gær.

Fyrirtækið hafði áður samið um kaup á fimmtán prósenta hlut ríkisins. Kaupin voru háð því að forkaupsréttur á hlutafénu yrði ekki nýttur. Aðkoma Geysis Green Energy að Hitaveitunni virðist því ekki lengur inni í myndinni.

Gunnar Svavarsson, fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar í stjórn HS, segir ljóst að Hafnarfjarðarbær muni kaupa allt hlutafé í Hitaveitunni sem þeim stendur til boða. „Það eru allir að lýsa því yfir að þetta sé gott fjárfestingartækifæri. Við lítum á það þannig. Við höfum sterkt bakland og ég get ekki séð hvað gæti komið í veg fyrir að við nýtum okkur forkaupsrétt okkar á hlutafé ríkisins og sveitarfélaganna."

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir allar líkur á því að Reykjanesbær nýti forkaupsrétt sinn. „Hafnarfjarðarbær segist ætla að nýta forkaupsréttinn og það gerist aldrei þannig að þeir myndu einir nýta hann. Fyrst einhver ætlar að nýta forkaupsréttinn þá tökum við okkar hlut."

Árni segir það ekki hafa verið hugmyndina hingað til að nýta forkaupsréttinn á 28 prósenta hlut sveitarfélaganna en ef svo færi þá yrði staða Reykjanesbæjar afar sterk. Fundur verður á mánudaginn í bæjarstjórn þar sem næstu skref verða ákveðin.

Síðustu tvo sólarhringa hefur verið gríðarleg barátta um Hitaveituna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gerði Orkuveita Reykjavíkur (OR) tilboð í allt hlutafé fyrirtækisins fyrir utan hlut Reykjanesbæjar og leiddu fulltrúar Grindavíkurbæjar þær viðræður. Tilboð OR var á genginu 7,0 en Geysir Green Energy, sem áður hafði samið um fimmtán prósenta hlut ríkisins, svaraði því með tilboði upp á 7,1 sem sveitarfélögin gengu að í gær.

Kaupverð 43 prósenta hlut ríkisins og sveitarfélaganna sjö er um 23 milljarðar króna.

Frétt af visir.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024