Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fréttablaðið og Morgunblaðið vilja bæði innanlandsflugið til Keflavíkur
Laugardagur 18. mars 2006 kl. 17:49

Fréttablaðið og Morgunblaðið vilja bæði innanlandsflugið til Keflavíkur

Fréttablaðið fetaði í morgun í fótspor Morgunblaðsins frá því í haust og tók undir þau sjónarmið að flytja ætti innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar. Þar segir m.a.: „ Lítill vafi leikur á því að flutningur Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli flýtir stórlega fyrir því að miðstöð innanlandsflugs flytjist úr Vatnsmýrinni. Að sama skapi er morgunljóst að hugmyndir um byggingu annars innanlandsflugvallar í allra næsta nágrenni höfuðborgarinnar, hvort sem það væri á Lönguskerjum eða annars staðar, eru úr sögunni.“ Í lok leiðarans segir svo: „Það er ekki eftir neinu að bíða.“

Að neðan eru leiðarar blaðanna um flutning innanlandsflugsins:

Fréttablaðið, 18. mars 2006
Innanlandsflugið til Keflavíkur

Ástæðan fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur festi sig í sessi á sínum tíma í Vatnsmýrinni var koma hernámsliðs Breta til landsins haustið 1940. Það er táknrænt að 66 árum síðar má telja fullvíst að dagar flugvallarins séu endanlega taldir með brotthvarfi annars hers.

Lítill vafi leikur á því að flutningur Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli flýtir stórlega fyrir því að miðstöð innanlandsflugs flytjist úr Vatnsmýrinni. Að sama skapi er morgunljóst að hugmyndir um byggingu annars innanlandsflugvallar í allra næsta nágrenni höfuðborgarinnar, hvort sem það væri á Lönguskerjum eða annars staðar, eru úr sögunni.

Jafnvel hörðustu talsmenn þess að halda flugvellinum um kyrrt í Vatnsmýrinni ættu að gera sér grein fyrir því að allt of kostnaðarsamt er fyrir þjóðina að halda úti tveimur flugvöllum á suðvesturhorni landsins. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur lengi verið í þeirra hópi en í ráðherratíð hans hefur verið ráðist í mjög kostnaðarsamar endurbætur á Reykjavíkurflugvelli og fyrir liggja áætlanir um að byggja nýja samgöngumiðstöð í námunda við Hótel Loftleiðir.

Erfitt er að fást mikið um þann kostnað sem þegar hefur verið stofnað til vegna endurbóta flugvallarins, en vissulega má þó spyrja hvort ekki hefði mátt fara fram á meiri framsýni þegar ráðist var í þær framkvæmdir. Öðru máli gegnir um fyrirhugaða samgöngumiðstöð. Þau plön hljóta að verða tekin til rækilegrar endurskoðunar.

Á fundi stjórnenda Leifsstöðvar og Aflvaka, þróunarfélags Reykjavíkurborgar, síðla árs 2004 kom fram að kostnaður við rekstur Reykjavíkurflugvallar nemur um 300 milljónum á ári fyrir utan yfirstjórn og stofnkostnað. Þar kom líka fram að rekstur innanlandsflugs á Keflavíkurflugvelli myndi að öllum líkindum kosta um 60 til 80 milljónir á ári fyrir utan stofnkostnað, sem þýðir að beinn sparnaður er yfir 200 milljónir árlega.

Í áætlunum flugvallaryfirvalda og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er nú þegar gert ráð fyrir því að innanlandsflug gæti flust á Keflavíkurflugvöll og til eru tillögur um staðsetningu nýrrar flugstöðvarbyggingar fyrir innanlandsflugið í nágrenni við alþjóðaflugstöðina. Ekki má heldur gleyma því að flutningur innanlandsflugsins skapar fjölmörg atvinnutækifæri sem gætu fyllt að einhverju leyti upp í skarðið sem herinn skilur eftir sig.

Áhugi heimafólks á Suðurnesjum er þegar mjög skýr í þessum efnum. Síðasta haust voru stofnuð í Reykjanesbæ þverpólitísk samtök um það markmið að beita sér fyrir flutningi innanlandsflugsins til Keflavíkur í sátt við alla þjóðina. Meðal hugmynda sem voru nefndar í því samhengi var að með bættum samgöngum væri hægt að ná ferðatíma frá Keflavíkurflugvelli til miðbæjar Reykjavíkur niður í 25 til 30 mínútur.

Á fyrrnefndum fundi stjórnenda Leifsstöðvar og Aflvaka kom fram að mögulegt er að flytja innanlandsflug til Keflavíkur á innan við einu ári. Það er ekki eftir neinu að bíða.



Morgunblaðið, 17. september 2005
Innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar

Smátt og smátt hefur orðið til víðtæk málefnaleg samstaða um að Reykjavíkurflugvöllur eigi að hverfa og það landrými, sem hefur farið undir hann, verði tekið til annarra nota. Þetta er í samræmi við niðurstöðu meirihluta þeirra, sem greiddu atkvæði fyrir nokkrum árum í kosningu meðal Reykvíkinga, sem borgarstjórnin efndi til fyrir nokkrum árum. Þar með er miklum áfanga náð í umræðum um framtíðarskipulag höfuðborgarinnar og nágrannasveita.

Eftir eru umræður um það, hvort flytja eigi innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar eða byggja nýjan flugvöll nær höfuðborginni, sem mundi þjóna innanlandsflugi.

Landsbyggðarfólk hefur á allmörgum undanförnum árum lagzt á þá sveif, að byggja eigi nýjan flugvöll nær höfuðborginni en Keflavíkurflugvöllur er. Hefur þeirri skoðun verið lýst, að mikið óhagræði væri í því að hafa innanlandsflugvöll svo fjarri miðju höfuðborgarsvæðisins, sem Keflavíkurflugvöllur er. Miklar og snöggar breytingar í veðri valdi því, að stundum tefjist flug og stundum sé tekin snögg ákvörðun um að fljúga og af þeim sökum feli staðsetning innanlandsflugs á Keflavíkurflugvelli í sér mikið óhagræði fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Þá sé ljóst að vegalengdin á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkursvæðisins lengi mjög þann tíma, sem það taki landsbyggðarfólk að komast til höfuðborgarinnar.

Margt hefur breytzt á þeim tíma, sem þessar umræður hafa staðið. Höfuðborgarsvæðið hefur þanizt út. Það getur tekið jafn langan tíma að komast úr vesturbæ Reykjavíkur eða af Seltjarnarnesi til Kjalarneshluta höfuðborgarinnar eins og það tekur að aka frá Hafnarfirði til Keflavíkurflugvallar svo að dæmi sé tekið. Þegar farið er til Keflavíkurflugvallar er aðal vandinn sá að komast út úr þéttbýlinu. Um leið og komið er út úr Hafnarfirði tekur 15-20 mínútur að aka til Keflavíkur. Umræður um vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu og þann tíma, sem tekur að ferðast um það, hafa öðlast alveg nýja vídd.

Reykjanesbrautin er að gjörbreytast. Nú eru komnar tvær akreinar á hana að hluta til. Allir sem þar fara um finna hvað í því felst mikil breyting og mikið öryggi. Verði heimilað að auka ökuhraðann í 110 km styttist sá tími enn, sem þessi ferð tekur.
Hins vegar er æskilegt að verði sú ákvörðun tekin að innanlandsflug skuli fara um Keflavíkurflugvöll verði jafnframt teknar ákvarðanir um að greiða fólki leið út úr mesta þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu eða inn í það, ef svo ber undir. Það er meiri ástæða til að verja umtalsverðum fjármunum til þess en að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflug.

Morgunblaðið er þeirrar skoðunar, að tímabært sé að taka af skarið með það að Keflavíkurflugvöllur eigi í framtíðinni að þjóna innanlandsflugi og hefja undirbúning að því, að sú verði raunin. Að þessu leyti er blaðið sammála því, sem fram kom hjá Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, á fundi í Reykjanesbæ í fyrrakvöld, sem Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, efndi til.

Það kostar mikla fjármuni að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflug nær höfuðborginni. Þeim fjármunum væri betur borgið til frekari samgöngubóta á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024