Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 5. janúar 2001 kl. 11:42

Fréttaannáll 2000 -Skin og skúrir á Suðurnesjum

Árið 2000 verður lengi í minnum haft fyrir margra hlutia sakir. Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri VF gróf upp nokkur tölublöð frá liðnu ári og rifjaði upp eitt og annað sem átti sér stað hér suður með sjó.


Sameiningarumræða ársins:
Hvaða hiti er þetta í Vogamönnum?
Þorsteinn Erlingsson lagði til að skipuð yrði nefnd sveitarstjórnarmanna og embættismanna Hitaveitu Suðurnesja í upphafi árs til að skoða hlutafélagavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Síðan átti „háeffið“ að sameinast Rafveitu Hafnarfjarðar. Allir vildu í sæng með hafnfirskum nema Vogamenn sem allir héldu þó hliðholla nágrönnum sínum í Firðinum. „Hér er ekki rétt gefið“, sagði Jóhanna sveitarstjóri og vill láta stokka að nýju!

Sama tugga ársins:
Það kostar að lifa!
Skólamál, félagsþjónusta og íþrótta- og tómstundamál taka 70% af rekstrarfé Reykjanesbæjar og minnihlutinn segir meirihlutann stunda hrikalega eyðslu umfram tekjur. Meirihlutinn samþykkti fjárhagsáætlunina en minnihlutanum finnast stólarnir í fundarsal bæjarstjórnar góðir og sitja hjá eins og vanalega.

Ölæði ársins:
Skónúmer 45 á enninu!
Ölóður maður sparkaði í andlit lögreglumanns í heimahúsi í Keflavík í ársbyrjun. Lögreglan hafði verið kölluð til vegna ölvunarláta og ónæðis. Mikið ölvaður maður kom til dyra og meinaði lögreglunni að hafa tal af húsráðanda. Þá brutust út átök milli löggunnar og þess ölvaða sem lauk með því að hinn ölvaði sparkaði í andlit lögreglumanns. Hann var þá yfirbugaður og vistaður í fangageymslu. Skór mannsins voru gerðir upptækir.

Allt á floti ársins:
Hér stóð höfn með bryggjur fjórar...
Grindavíkurhöfn komst heldur betur í fréttirnar á árinu. Nýendurbættar bryggjur stórskemmdust í miklum flóðum í ársbyrjun. Tjónið var metið á þriðja tug milljóna. Síðar á síðasta vetri gerði aftur mikið óveður og þá var flutningaskip nærri slitnað upp en var bjargað.

Gangsetning ársins:
Hvað eru þrír milljarðar
Hitaveita Suðurnesja sem fagnaði 25 ára afmæli í ársbyrjun 2000 fagnaði afmælinu með því að taka formelga í notkun nýtt orkuver, svokallað orkuver 5. Dæmið kostaði 3 milljarða og framleiðir um 30 megavött af „hreinu“ rafmagni.

Tilræði ársins:
„Ég heyrði þennan ægilega smell“
Sveinn Guðnason varð fyrir þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að skotið var á strætisvagninn hans þegar honum var ekið um Garðahverfið í Keflavík rétt eftir hádegi í janúar. „Ég heyrði þennan ægilega hvell og síðan rigndi yfir mig glerbrotum. Ég hélt fyrst að krakkar hefðu hent ljósaperu eða þvíumlíku inni í bílnum en þetta reyndist vera byssukúla úr loftbyssu sem fór í gegnum rúðuna“.

Knattspyrnuvöllur ársins:
Og þá var kátt í höllinni
Reykjaneshöllin var opnuð á árinu með pomp og prakt. Yfirbyggður knattspyrnuvöllur í fullri stærð og veðurfarið inni alltaf eins og á Spáni eða allt að því. 2000 manns mættu í opnunarhátíðina og Víkurfréttir gáfu út blað um herlegheitin...

Sameining ársins:
Sendum engar pappalöggur til Grindavíkur
Lögregluliðin í Keflavík og Grindavík voru sameinuð á árinu. Hitafundur borgara var haldinn með lögreglu og dómsmálaráðherra í Grindavík þar sem bæði var baulað og klappað. Nú er bara eitt lögreglulið fyrir allan skagann. Tveir punktar þar...

Braut ársins:
Tvöföldun strax!
Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stóð fyrir fundi um tvöföldun Reykjanesbrautar snemma á árinu eftir enn eitt alvarlegt slysið á brautinni. Þingmenn mættu á fundinn og einn þeirra, Árni Matt varð reiður og rauk af fundi og hefur vart sést á Suðurnesjum síðan... Þungaflutningar um brautina voru einnig til umræðu en upplýst var að olíuflutningar um Reykjanesbraut væru á við umferð 250.000 fólksbíla, takk fyrir.

Gutl ársins:
Þetta bragðast alveg eins og sápa
Markaðs- og atvinnuráð Reykjanesbæjar fór þess á leit við Utanríkisráðuneytið að samið yrði við Vatnsveitu Suðurnesja um að tengja Leifsstöð veitukerfi VAS. Vatnið í Leifsstöð er klórblandað og telur ráðið það staða ímynd Íslands. Ástæða klórblöndunarinnar er sú að stöðin er skilgreind sem hernaðarmannvirki. Hæ Litli...

Skíthús ársins:
Allir að pissa aftast!
Mikið óveður með tilheyrandi ófærð gerði í febrúar. Umferð um Reykjanesbraut sat föst í snjósköflum. Þar á meðal var rúta frá SBK. Þegar farþegunum var orðið mál að pissa varð bílstjórinn, Guðmundur Steindórsson að taka til sinna ráða. Hann útbjó ferðaklósett úr þvottafötunni og þar með var kvenfólkið um borð í góðum höndum...


Lottó ársins:
Þetta er nú meira lóðaríið...
Lóðamál í Reykjanesbæ voru mál málanna og sagður skortur á byggingalóðum fyrir rað- og einbýlishús. Minnihlutinn deildi hart á meirihlutann fyrri frammistöðuleysi. Benda menn á Nikkelsvæðið sem „gósenland“ en aðeins séu 26 lóðir lausar í sveitarfélaginu og þar af aðeins 15-17 til úthlutunnar.


Þjófar ársins:
Með Brassana í vasanum
Páll Guðlaugsson, sem var ekki þjálfari ársins hjá Keflavík flutti inn þjófa ársins. Á hans vegum komu hingað Brasilíumenn til að spila knattspyrnu. Þeir þóttu fótafimir, en voru þó frekar fingralangir fyrir Keflavíkurliðið. Þeir sóttu gull í vasa leikamanna en upp komst um síðir og Brassarnir voru sendir heim með tóma vasa...

Árekstur ársins:
Hvaða hálka er þetta?
Fiskflutningabílstjórar hittust á horni í Sandgerði á árinu sem aldrei fyrr. Annar þeirra hafði gleymt því að það var hálka á götum og ók í hliðina á fulllestuðum bíl sem með það sama hentist út í móa og fiskurinn út um allt. Sem betur ferð urðu ekki slys á fólki en annar flutningabílstjórinn áhvað fljótlega eftir þetta að kaupa sér sjoppu - þó svo það tengist árekstrinum ekki neitt...

Örtröð ársins:
Þú núna, svo hann og svo þessi...
Hafnasamlag Suðurnesja er alveg í hassi þessa dagana þrátt fyrir mikla örtröð í höfnum samlagsins. Loðnubátarnir voru duglegir að heimsækja Helguvíkurhöfn á árinu. Þar var ekki bara landað loðnu og síld, því þegar líða tók á árið var laxi dælt upp úr höfninni í tonnavís.

Uppljómun ársins:
Ég er alveg Bergnuminn
Framlag Reykjanesbæjar til Menningarborgar var lýsing á Bergið í Keflavík. Það var lýst upp síðsumars og mættu um 10.000 manns á ljósanótt í Reykjanesbæ.


Eftirför ársins:
Hvaða bláu ljós eru þetta í speglinum?
Lögreglan átti í æsilegum eltingaleik við ökumann svartrar jeppabifreiðar um miðnætti í loka mars. Maðurinn hafði ekki stöðvað við merki lögreglu í Keflavík, heldur gaf allt í botn og ók fjallabaksleið alla leið inn í Voga með lögguna á hælunum. Þegar í Vogana var komið stöðvaði jeppinn en ökumaðurinn lagði á flótta hlaupandi. Hann var hlaupinn uppi af móðum og másandi lögreglumanni. Maðurinn mun hafa tekið bílinn í leyfisleysi. Sami maður tók annan bíl traustataki skömmu síðar og velti honum og gjöreyðilagði við Hafnir.


Fegurð ársins:
Fagurt fljóð úr Grindavík
Sigríður Anna Ólafsdóttir, 18 ára úr Grindavík, var kjörin Fegurðardrottning Suðurnesja árið 2000 í Bláa lóninu. Keppnin þótti takast vel en tíu stúlkur af Suðurnesjum kepptu um titilinn. Herra Suðurnes er hins vegar Jón Freyr Hjartarson.


Tugga ársins:
Hvað er þessi golfvöllur margar holur?
Hross voru til vandræða á Kálfatjörn á árinu. Þessir grasmótorar fóru af nærliggjandi jörðum inn á golfvöllinn við Kálfatjörn og gæddu sér þar á fánum og tíum. Þá fóru þeir einnig í kirkjugarðinn og gerðu þar usla. Eigendum hrossanna var gert að fjarlægja hestana, enda hafði sveitarstjórnin í Vogum ekki gefið leyfi fyrri hestum sem borða golfvelli og kirkjugarða.


Vitni ársins:
Hún dúkkaði upp sí svona...
Geysiharður árekstur á gatnamótum Vesturgötu og Kirkjuvegar seint í apríl rennur seint úr minni lögreglunnar. Þrátt fyrir mikið eignatjón gátu menn ekki annað en brosað á vettvangi þar sem uppblásin dúkka fyrir fullorðna karlmenn var í bifreið tjónvaldsins. Þögult vitni sagði löggan og allt loft úr því þegar laganna verðir komu á vettvang.

Afhending ársins:
Lóðir til leigu, þarfnast hreinsunar!
Skriður kom á afhendingu Nikkelsvæðisins á árinu þegar bæjarsjórn Reykjanesbæjar barst bréf frá Utanríkisráðuneytinu þar sem Reykjanesbæ er boðið Nikkelsvæðið til leigu til 99 ára. Svæðið mun vera mengað en sú mengun á að vera vel viðráðanleg. Gert er ráð fyrir 430 íbúða byggð á svæðinu auk þjónustubygginga og iðnaðarhúsnæðis.

Plús ársins:
Kælum eyðimörkina frá Keflavík!
Thermo Plus komst oft í fréttirnar á árinu fyrir ýmsa samninga. Þannig gerði fyrirtækið góða hluti í Bretlandi með samningum við sendibílafyrirtæki. Þá var gengið frá samningum í Saudi Arabíu fyrir um 700 milljónir. Ekki kuldalegar fréttir það - eða hvað?

Búðir ársins:
Nóatún, 10-11 og Bónus... neeeei!
Stórveldin á matvörumarkaði hófu innrás sína á yfirráðasvæði Samkaupa á árinu. Kaupás opnaði Nóatúnsverslun í gullnámu Bónbræðra sem áður hét Félagsbíó. Nú rétt fyrir jól opnaði svo Baugur 10-11 verslun í nýju stórhýsi við Hafnargötu og þar með var aftur komin matvöruverslun við aðal verslunargötu bæjarins. Samkaupsmenn hafa snúið vörn í sókn og boða stórsókn á höfuðborgarsvæðið og hafa bætt KEA í vopnabúrið...


Risi ársins:
Þorskar heimsins sameinist
Grindvísku sjávarútvegsrisarnir Þorbjörn og Fiskanes sænguðu saman á árinu og buðu Valdimar hf. í Vogum uppí. Úr varð nýr sjávarútvegsrisi með veltu upp á tæpan 4,5 milljarð króna.

Handtaka ársins:
Með byssu og sauðkind í bílnum
Lögreglan þurfti oft og mörgum sinnum að hafa hendur í hári óprúttinna manna og kvenna á árinu. Þannig fjölmennti lögreglan á Fitjarnar í júní og setti þar menn í járn vinstri hægri. Ekkert fannst dópið í það skiptið en aðilar úr sama máli voru handteknir nokkrum klukkustundum síðar fyrir að veifa skotvopni út um glugga bifreiðar og að hafa tekið sauðkind höndum og haft hana í bíl sínum...


Bruni ársins:
Hvað þarf 18" pizza langan tíma?
Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja voru blessunarlega lausir við stórbruna á árinu en höfðu þó í nógu að snúast. Langbest brann þó til grunna ef svo má segja sama dag og landinn hristist upp úr skónum í Suðurlandsskjálfta númer eitt. Fjöltengi var um að kenna en staðurinn hefur verið endurbyggður í gjörbreyttri mynd. Einngi varð alvarlegur bruni í íbúðarhúsi við Hraunsveg í Njarðvík, Brekkubraut í Keflavík og íbúð varð eldi að bráð í Vogum. Hlutfallslega mesti bruninn, miðað við höfðatölu, varð í Höfnum þegar gamalt íbúðarhús brann til grunna og slökkviliðið lenti í vandræðum með rafmagnslausan brunahana - og hana nú! Þá varð mikil gassprenging í iðnaðarhúsnæði í Njarðvík þar sem tveir piltar slösuðust og allt brann sem brunnið gat.

Þögn ársins:
Er ekkert að gerast hjá löggunni?
Lögreglan tók í notkun nýtt fjarskiptakerfi á árinu þannig að allir hlerunarfíklnar sem lögðu það í vana sinn að hlusta á löggutíðnina heyrðu allt í einu ekki neitt. Heimilislíf margra er í rúst, enda uppspretta góðra kjaftasaga nú lokuð. Slökkviliðið og sjúkrabíllinn eru að fara yfir á sama kerfi og þögnin er að verða alger...


Della ársins:
Tvöföld Go-kartbraut!
Stebbi í Reis er mjög illa haldinn af dellu ársins eins og kom berlaga í ljós þegar hann réðst í byggingu á GO-kartbraut við Innri Njarðvík. Hann lagði brautina á mettíma þegar loksins fékkst endanlegt leyfi hjá bænum. Menn hafa brunað í hringi við Reykjanesbrautina á öllum tímum og skiptir engu þó svo svartabylur sé úti.

Kvikindi ársins:
Hvað er tveir metrar og baneitrað?
Íbúar í Reykjanesbæ eru af ýmsum toga eins og löggan komst að fyrir verslunarmannahelgi. Slöngur og eðlur voru gerðar upptækar á heimili sínu í Njarðvík en eigandinn var ekki með tilskilin leyfi fyrir þess háttar dýrahaldi. Löggan handtók sex svokallaða rottusnáka sem geta orið 15 ára gamlir og allt að 2 metra langir. Snákarnir sem löggan tók voru þó aðeins ungviði, 5 mánaða gamlir. Þá tók löggan einnig vatnadreka og fjórar litlar græneðlur. Eins gott að þarna voru ekki grameðlur!


Leki ársins:
Á vettvang í einum logandi....
Strákarnir á björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein voru á fullri ferð í útkall til að bjarga sökkvandi lúðuveiðara þegar eldur kom upp í björgunarskipinu. Varðskip kom björgunarskipinu til hjálpar og lánaði slökkvibúnað. Togarinn Sturlaugur H. Böðvarsson frá Akranesi bjargaði lúðuveiðaranum en Siggi Guðjóns úr Sandgerði dróg hann síðasta spölinn inn til Sandgerðis þar sem dælt var úr honum. Lúðuveiðarinn fór síðan í slipp í Njarðvík og er þar örugglega ennþá.


Ömmur ársins:
Ég skal draga þig á hárinu!
„Hún hefði komið með mér þó svo ég hefði þurft að draga hana á hárinu,“ sagði Kristín Kristjánsdóttir kaupkona í Kóda eftir að hafa handsamað búðarþjóf fyrir stórfelldan þjófnað. „Hún grýtti í mig pokanum þegar ég náði henni og sagðist ekki ætla að lenda í lögreglunni“. Lögreglan kom á staðinn og hirti konuna. Í fréttum Víkurfrétta voru búðarþjófarnir, tvær konur á miðjum aldri, kallaðar ömmur í ránsferð. Hin var handtekin skömmu síðar í góðu yfirlæti á Ránni. Konurnar voru einngi grunaðar um þjófnaði úr fleiri verslunum á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.


Háhýsi ársins:
Gott útsýni úr húsunum í kring...
Deilt var um háhýsi í Keflavík á árinu. Staðsetning á fyrirhuguðu háhýsi við Aðalgötu fór fyrir brjóstið á mörgum en átta hæða bygging þótti ekki passa á lóðina Aðalgötu 7-9 þar sem næstu hús voru aeins 3-4 hæða.

Gabb ársins:
Vá, tölvupóstur frá AC Milan
Snorri Birgisson, 16 ára markvörður úr Keflavík, fékk heldur betur að kenna á því á árinu. Ljótur hrekkur var settur í gang á netinu og tölvupóstur sendur til knattspyrnudeildar Keflavíkur þar sem stórliðin AC Milan og Paris SG spurðust fyrir um strák. En því miður - allt í plati...

Ökuferð ársins:
Þetta er ekki svo stór alda er það?
Fólksbifreið með tveimur ungum mönnum fór í höfnina í Garði í nómvember. Mikið hvassviðri og brim var þegar atburðurinn átti sér stað. Mennirnir óku út á bryggjuna í Garði og skyndilega greip þá stór alda og kastaði langt út í höfn. Ungu mennirnir komust út úr bílnum og varð ekki meint af. Bifreiðin sem var nýleg, gjöreyðilagðist.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024