Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fresta framkvæmdum til að vinna gegn þenslu
Fimmtudagur 13. júlí 2006 kl. 11:17

Fresta framkvæmdum til að vinna gegn þenslu

Bæjarráð Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum í gær að fresta framkvæmdum við þrjú verkefni sem stóðu fyrir dyrum. Með því vilja bæjaryfirvöld koma til móts við tilmlæli forsætisráðherra frá því fyrr í sumar þar sem hann hvatti opinbera aðila til að draga úr framkvæmdum og stemma þannig stigum við þenslu í efnahagslífinu.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að í ljósi atvinnuástandsins á Suðurnesjum sé erfitt um vik fyrir sveitarfélagið að draga úr framkvæmdum sem eru atvinnuskapandi í bæjarfélaginu á sama tíma og fólk er að missa störf sín á Varnarliðssvæðinu. Kröfur um tímabundið aðhald í framkvæmdum nú ættu því síst að eiga við í tilviki Reykjanesbæjar.

Á hitt ber að líta að tímabundið átak allra um aðhald í framkvæmdum til að viðhalda sterkri stöðu efnahagslífsins sé mikilvægara en erfiðar aðstæður einstakra svæða, þótt taka beri tillit til slíkra aðstæðna.

Því vilja forsvarsmenn Reykjanesbæjar sýna jákvæða viðleitni gagnvart þessu mikilvæga verkefni um að allir taki höndum saman til að gæta aðhalds í framkvæmdum svo unnt verði að halda kröftugri uppbyggingu áfram sem víðast um land frá miðju næsta ári.
Þetta verður gert með því að Reykjanesbær stuðli að frestun eftirfarandi framkvæmda:

Þjóðbraut – ( 256 milljóna framkvæmdakostnaði frestað næstu 8 mánuði)
Verkefnið var tilbúið til útboðs í byrjun árs og skyldi opnað 7. apríl sl. Um er að ræða framkvæmd á þjóðvegi sem liggur frá Reykjanesbraut inn í miðjan bæinn. Hér er um að ræða afar mikilvæga tengibraut fyrir stækkandi bæjarfélag sem mikil áhersla hefur verið lögð á við þingmenn og forsvarsmenn Vegagerðarinnar. Reykjanesbær hafði boðist til að flýtifjármagna framkvæmdina svo unnt yrði að hefjast handa nú í sumar. Þar sem verkið hefur enn ekki verið sett í útboð er fyrirséð að því verður frestað næstu 8 mánuði.

Bæjarskrifstofur sameinaðar – ( 220 millj. kr. frestað næstu 8 mánuði)
Fyrirhugað hefur verið að flytja bæjarskrifstofur á einn stað í bænum, við Tjarnargötu 12, en nú er staðsetning á tveimur stöðum með tilheyrandi óhentugleikum. Lagt er til að þetta verkefni bíði fram á næsta ár, að því tilskildu að við leigusala núverandi húsnæðis í Kjarna semjist áfram.

Ráðstefnu og tónlistarmiðstöð. (180 millj. kr. frestað næstu 8 mánuði)
Fyrirhugað var að hefja framkvæmdir við Ráðstefnu og tónlistarmiðstöð um næstu áramót- Vegna núverandi aðstæðna er lagt til að verkefninu verði skipt í tvennt þannig að fyrsti áfangi, tónlistarskóli með aðstöðu Poppminjasafns Íslands verði framkvæmdur frá miðju næsta ári og opni haustið 2008, en endurnýjun og nýframkvæmdir við Stapann bíði. 

 

 

VF-mynd/Þorgils: Frá framkvæmdum í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024