Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Frekari tvöföldun Reykjanesbrautar fyrirhuguð
Frá framkvæmdum við hringtorg á Fitjum sem var gert til bráðabirgða árið 2015. VF/Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 9. júlí 2024 kl. 12:14

Frekari tvöföldun Reykjanesbrautar fyrirhuguð

Vegagerðin undirbýr tvöföldun Reykjanesbrautar milli Fitja og Rósaselstorgs

Vegagerðin hefur skilað Skipulagsstofnun matsáætlun vegna umhverfismats fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnavegar og Garðskagabrautar. Framkvæmdakaflinn sem um ræðir er um 4,7 kílómetrar og nær frá hringtorgi við við Fitjar að Rósaselstorgi [þaðan sem núverandi tvöföldun brautarinnar lýkur að hringtorgi þar sem Reykjanesbraut, Sandgerðisvegur og Garðskagavegur mætast]. Vegurinn verður fjögurra akreina vegur, með tveimur akreinum í hvora átt og verða aksturstefnur aðskildar með vegriði.

Í svari frá Vegagerðinni við fyrirspurn Víkurfrétta vegna málsins segir að matsáætlun sé fyrsta stig umhverfismats; „þar sem greint er frá fyrirhugaðri framkvæmd og hvaða rannsóknir verða gerðar til að meta áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið. Skipulagsstofnun auglýsir matsáætlun og sendir til umsagnaraðila. Allir hafa möguleika á að senda inn athugasemdir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skipulagsstofnun hefur sett matsáætlunina í kynningu og er hún aðgengileg á Skipulagsgátt.

Allir geta kynnt sér matsáætlunina og veitt umsögn í gegnum Skipulagsgáttina eigi síðar en 1. ágúst 2024 en gera má ráð fyrir að umhverfismati ljúki síðla árs 2025.

Við Rósaselstorg koma Reykjanesbraut, Garðskagabraut og Sandgerðisvegur saman.

Lok tvöföldunar Reykjanesbrautar í sjónmáli

Vinna við tvöföldun Reykjanesbrautar frá hringtorgi við Fitjar að höfuðborgarsvæðinu hófst í byrjun árs 2003 og nú stendur yfir vinna við síðasta kaflann á þeirri framkvæmd, sá kafli nær frá Krýsuvíkurvegi og að Hvassahrauni á milli þeirra kafla sem þegar hafa verið tvöfaldaðir. Þær framkvæmdir ganga vel samkvæmt færslu á vef Vegagerðarinnar þann 21. mars sl. en þar segir að mikill kraftur sé í framkvæmdum og reikna megi með að verkinu verði lokið fyrr en áætlað var. Verklok í útboðinu voru áætluð þann 30. júní 2026.