Framvísaði fölsuðum lyfseðli
Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd að apóteki í umdæminu, þar sem viðskiptavinur hafði reynt að fá afgreitt lyf út á lyfseðil sem búið var að breyta. Starfsmanni apóteksins fannst seðillinn grunsamlegur og hafði því samband við lækninn sem gaf hann út. Læknirinn kvaðst hafa skrifað upp á parkódín fyrir þennan tiltekna viðskiptavin.
Búið var að bæta forte aftan við parkódín þegar lyfseðillinn kom í hendur hins árvökula starfsmanns, þannig að sá sem framvísaði seðlinum hefði fengið mun sterkara lyf afgreitt en ella.
Viðskiptavinurinn harðneitaði að hafa breytt seðlinum, en kvaðst hafa lagt hann frá sér og einhver óviðkomandi líklega notað tækifærið og breytt honum þá.