Framtíð Suðurness ræðst í vikunni
Hollenskur eigandi fiskvinnslufyrirtækisins Suðurnes í Reykjanesbæ heldur fund með starfsmönnum í dag en ákvörðun um afdrif Suðurnes liggur fyrir í vikulokin að sögn Stefaníu Valgeirsdóttur, rekstrarstjóra fyrirtækisins. Á fimmta tug manna missir vinnuna nú í haust hætti fyrirtækið rekstri eins og sagt var frá í gær. Stefanía er ósátt við að málið skyldi hafa borist til fjölmiðla þar eð formleg ákvörðun hafi ekki verið tekin né málið kynnt starfsmönnum.
Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, segir leitt að starfsmenn fyrirtækisins hafi fengið þessar fregnir í fjölmiðlum í dag. Kristján segir tíðindin áfall fyrir Reykjanesbæ. Ríkisútvarpið greindi frá þessu.






