Framtíð Reykjanesbæjar ræðst að öllum líkindum í dag
- Fundur bæjarráðs stendur yfir
Nú stendur yfir fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar en hann hófst klukkan 9 í morgun. Á fundinum verður að öllum líkindum ákveðið hvort óskað verði eftir því að innanríkisráðuneytið skipi fjárhagsstjórn yfir fjármál sveitarfélagsins. Kröfuhafar höfðu fengið frest þar til síðdegis í gær til að taka afstöðu til samnings um að fella niður skuldir Reykjanesbæjar fyrir 6,35 milljarða króna.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í viðtali við Víkurfréttir þann 8. apríl síðastliðinn að hann vonaði að samningar myndu nást því að bæjaryfirvöld hefðu nokkuð skýra sýn á hvað sú leið þýddi og hvaða jákvæðu áhrif hún myndi hafa. „Hin leiðin, það er skipun fjárhagsstjórnar, hefur algjöra óvissu í för með sér fyrir alla aðila,“ sagði bæjarstjórinn þá.