Framtíð herstöðvarinnar ræðst á næstu tveimur mánuðum
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Robert G. Loftis, sendiherra og formanni bandarísku samninganefndarinnar að það er mikilvægt að allir hafi í huga að skuldbinding Bandaríkjamanna um að verja Ísland sé algerlega óbreytt.
„Nú er ógnin frá Sovétríkjunum horfin og þess vegna þarf að skoða hvernig Bandaríkin og Ísland geta unnið saman í breyttu umhverfi þar sem áherslan er á hryðjuverkaógn, löggæslu og fleira í þeim dúr. Við þurfum því að ræða, og erum í raun byrjaðir að ræða við íslensk stjórnvöld, hvernig viðbúnaður okkar þarf að þróast til þess að mæta nýjum hættum.„
Fundurinn með utanríkisráðherra og íslensku sendinefndinni í gær kemur í framhaldi af fundi samningamanna í Washington í sumar, en efni viðræðnanna er hvernig samstarfið um varnir Íslands verði, hvernig útfærslan verði nákvæmlega og hver borgi brúsann. „Ég á von á því að þessar viðræður haldi áfram næstu tvo mánuði eða svo þar til við náum samkomulagi. Við erum ekki að takast á um grundvallarspurningar, heldur nákvæmlega hver útfærslan verður,“ segir Loftis í Morgunblaðinu í dag.
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson