Framleiða umtalsvert af hrognkelsaseiði í Grindavík
Umtalsvert eldi á hrognkelsaseiðum stendur nú yfir í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunarinnar á Stað við Grindavík. Áætlað er að fyrstu seiðin verði send til Færeyja í haust en hlutverk þeirra er að éta lús af laxi í eldiskvíum. Fimm manns vinna við rannsóknir og seiðaframleiðslu hjá tilraunastöðinni í Grindavík. Hrognkelsaframleiðslan er stærsta verkefni stöðvarinnar núna og skapar Hafrannsóknastofnun talsverðar tekjur. Frá þessu er greint á vefsíðu Fiskifrétta.
Ekki þarf nema eitt hrognkelsaseiði á hverja tíu laxa til að halda lúsinni niðri. Laxalús er mikið vandamál í Noregi og vaxandi vandamál í Færeyjum. Norðmenn hafa framleitt mikið magn af hrognkelsum fyrir fiskeldisfyrirtæki þar í landi en Færeyingar geta ekki flutt þau inn frá Noregi vegna sjúkdómahættu. Á Íslandi hafa hins vegar engir alvarlegir laxasjúkdómar komið upp.