Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 að hefjast aftur - verður tilbúin haustið 2025
Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hefjast aftur á næstu dögum. „Þetta eru tímamót í sögu Suðurnesjalínu 2,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets en stefnt er að því að línan verði tekin í rekstur haustið 2025.
Saga Suðurnesjalínu 2 er orðin löng og hefur verið erfið og ströng. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir að gæti hafist. Til að mynda var samþykkt ályktun á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum árið 2016.
Framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaga á leiðinni ásamt svæðisskipulagi og hafa öll fjögur sveitarfélögin á línuleiðinni samþykkt framkvæmdaleyfi. Samið hafði verið við um 96% af landeigendum en ráðuneyti umhverfis- orku- og loftslagsmála hefur heimilað eignarnám á þeim jörðum sem ekki hafa náðst samningar við.
Byrjað verður á slóðagerð og í kjölfarið verður borað fyrir stagfestum og undirstöður settar niður. Öllum helstu innkaupum og útboðum er lokið og möstur, leiðarar og annað efni komið í framleiðslu
Byrjað var á hluta framkvæmdarinnar fyrir tveimur árum á milli Rauðamels og Fitja við byggingu nýs tengivirkis á Njarðvíkurheiði, strenglagnar til Fitja og reisingu Reykjaneslínu 1 milli Njarðvíkurheiðar og Rauðamels. Gert er ráð fyrir að þessum hluta framkvæmda verði lokið í kringum næstu áramót. Línan verður í lofti alla leið en það er 1.5 km af jarðstreng innan Hafnarfjarðar.
Með tilkomu Suðurnesjalínu 2, Reykjaneslínu 1 og spennistöðvar á Njarðvíkurheiði verður flutningskerfið sveigjanlegra í rekstri og afhendingaröryggi á Suðurnesjum eykst til muna. Nægjanleg flutningsgeta verður til ráðstöfunar sem getur mætt stærri frávikum þegar stórar framleiðslueiningar eða stærri notendur aftengjast kerfinu skyndilega eða til lengri tíma t.d. vegna viðhalds.