Framkvæmdir við Reykjanesvirkjun hefjast fljótlega
Framkvæmdir munu hefjast fljótlega við Reykjanesvirkjun sem Hitaveita Suðurnesja mun reisa á Reykjanesi. Tilboð í stöðvarhús og jarðvinnu vegna virkjunarinnar voru opnuð á þriðjudag. Verið er að fara yfir tilboðin en fjögur íslensk verktakafyrirtæki skiluðu inn tilboðum eftir forval.
Að sögn Júlíusar Jónssonar forstjóra Hitaveitu Suðurnesja vonast hann til að fyrsta skóflustunga virkjunarinnar verði tekin á næstu dögum.
Verktími virkjunarinnar er mjög knappur en samkvæmt orkusölusamningnum verður verksmiðjan gangsett 1. maí árið 2006 eða eftir tæp tvö ár.
Í kringum 200 manns munu starfa við byggingu virkjunarinnar á næstu tveimur árum. Heildarkostnaður virkjanaframkvæmdanna er um 10 milljarðar króna. Veltuaukning Hitaveitu Suðurnesja vegna orkusölusamnings við Norðurál er um einn milljarður króna á ári.
VF-ljósmynd: Frá borun á Reykjanesi.