Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir við Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ hafnar
Laugardagur 13. nóvember 2004 kl. 21:17

Framkvæmdir við Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ hafnar

Fjölmenni var í dag við fyrstu skóflustunguna að nýrri íþróttaakademíu sem mun rísa í Reykjanesbæ á næstu mánuðum. Skóflustunguna tók fjöldi afreksfólks í íþróttum í Reykjanesbæ. Má þar nefna bikar- og Íslandsmeistara karla í körfu, meistara meistaranna í körfu, bikar- og Íslandsmeistara kvenna í körfu, bikarmeistara karla í knattspyrnu, meistara í 1. deild kvenna í knattspyrnu, bikar- og Íslandsmeistara í sundi, hestaíþróttum, íþróttum fatlaðra, meistara í golfi og keilu. Skóflustungurnar voru síðan teknar í flóðlýsingu rauðra blysa sem tendruð voru af þessu tilefni.
Áður en skóflustungan var tekin kynntu arkitektar teikningar af byggingunni og undirrituð var yfirlýsing um verksamning milli Fasteignar hf. og Íslenskra aðalverktaka um byggingu hússins.

Geir veitir akademíunni forstöðu
Geir Sveinsson fyrrverandi atvinnumaður og fyrirliði landsliðsins í handbolta hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íþróttaakademíunnar ses., sem staðsett er í Reykjanesbæ. Geir hefur nýlokið MBA námi frá Háskóla Íslands. 

Sjálfseignarstofnun
Á fimmtudag var gengið frá stofnun sálfseignarstofnunar um Íþróttaakademíu og á fyrsta fundi stjórnar var gengið frá ráðningarsamningi við Geir.
Stofnendur Íþróttaakademíunnar eru Reykjanesbær, Sparisjóðurinn í Keflavík, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, Sjóvá Almennar og Íslandsbanki. Í fulltrúaráði er gert ráð fyrir fulltrúum 16 félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana sem tengjast íþróttum og heilsueflingu. Þá er unnið að skipun sérstaks ráðgjafaráðs þar sem þjóðkunnir einstaklingar og fræðimenn á sviði íþrótta, heilsueflingar og viðskipta munu eiga sæti.
Í fyrstu stjórn Íþróttaakademíunnar sitja Árni Sigfússon, formaður, Hrannar Hólm, varaformaður, Una Steinsdóttir, ritari, Geirmundur Kristinsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson meðstjórnendur. Í varastjórn eru Geir Newman og Böðvar Jónsson.

Þríþætt verkefni
Verkefni Íþróttaakademíunnar, sem Geir mun stjórna, eru þríþætt: Háskólanám í íþróttafræðum sem stjórnað er af Háskólanum í Reykjavík og hefst haustið 2005, funda- og námskeiðahald um íþrótta- og heilsutengt efni í samstarfi við íþróttahreyfinguna, HR og heilbrigðisstofnanir, og aðstaða fyrir fjarkennslu í ýmsum námsgreinum en yfir 100 nemendur stunda nú fjarnám á vegum Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

 

Nánar um íþróttaakademíuna í Víkurfréttum á fimmtudaginn.

 

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024