Framkvæmdir við flugstöðina ganga vel
Framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru í fullum gangi. Ástæður þess að ráðist var í stækkunina eru fyrst og fremst fjölgun flugfarþega til og frá landinu og samningur milli nokkurra landa um frjáls ferðalög án vegabréfsskoðunar (Schengen). Núverandi flugstöð var hönnuð til að taka við um einni milljón farþega á ári. Farþegar árið 1999 voru um 1,47 milljónir og í ár er gert ráð fyrir um 1,6 milljón farþega.Farþegafjöldi margfaldastAð sögn Óskars Valdimarssonar, forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, gera farþegaspár fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar, ráð fyrir að farþegafjöldi verði um 2 milljónir árið 2005, 2,7 milljónir árið 2010 og allt að 3,5 milljónir árið 2015. „Nú eru tveir aðalverktakar að vinna við svokallaða Suðurbyggingu, sem er við suðurenda núverandi landgangs. Annars vegar Hávirki hf., sem er samsteypa Ístaks hf. og Højgaard & Sult AS/Miðvangs ehf., en þeir sjá um uppsteypu og frágang utanhúss. Hins vegar Íslenskir aðalverktakar hf. en þeir vinna við gerð innréttinga og flughlaða“, segir Óskar.Gert er ráð fyrir að Hávirki hf. ljúki sinni vinnu í desember n.k. en Íslenskir aðalverktakar í desember árið 2001. Stækkun Suðurbyggingar„Áætlað er að taka hluta byggingarinnar í notkun í mars á næsta ári, þegar Schengen-samningurinn tekur gildi, en framkvæmdum verður að fullu lokið í desember 2001.Í Suðurbyggingu, sem verður um 15.600 m2 á tveimur hæðum og kjallara, er meðal annars gert ráð fyrir aðstöðu fyrir áningar farþega („transit“), sem ekki þurfa að sýna vegabréf og koma því í raun ekki inn í landið. Verslunar- og þjónusturými verður um 4.400 m2 og nýjar landgöngubrýr verða fimm. Verða þá alls ellefu landgöngubrýr við flugstöðina að loknum þessum áfanga“, segir Óskar. Kostar 4 milljarðaAð sögn Óskars er fyrirhugað að stækka núverandi byggingu, svokallaða Norðurbyggingu, til suðurs. Fyrsti áfangi þeirrar stækkunar, um 700 m2, sem hýsa á ný innritunarborð verður tilbúinn í apríl á næsta ári. Hátt á annað hundrað manns eru nú við vinnu á byggingarstað, auk þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að verkinu utan flugstöðvarsvæðisins. Heildarkostnaður við framangreindar framkvæmdir er áætlaður tæpir 4 milljarðar króna.