Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Framkvæmdir við áningarstaði á Reykjanesi í sumar
Fimmtudagur 31. maí 2018 kl. 12:06

Framkvæmdir við áningarstaði á Reykjanesi í sumar

Verktakar á vegum Reykjanes Geopark vinna nú að endurbótum og lagfæringum á nokkrum vinsælum áningarstöðum ferðamanna á Reykjanesi, m.a. Gunnuhver, Reykjanesvita og Brú milli heimsálfa. Þetta kemur fram í fréttabréfi Reykjanes Unesco Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness.

Ný bílastæði og miklar endurbætur við Gunnuhver
Við Gunnuhver er unnið að nýju bílastæði vestan við hverasvæðið. Stæðið verður í hvarfi frá hverasvæðinu og mun verða nokkru stærra en bílastæðin sem eru fyrir. Núverandi bílastæði að vestanverðu verður nýtt að hluta til sem áningarstaður en að öðru leyti eingöngu ætlað þeim sem eiga erfitt með gang. Frá nýju bílastæði verða lagðir stígar og nýtt efni borið í þá stíga sem fyrir eru á svæðinu. Þá verða öll öryggisbönd á svæðinu endurnýjuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesviti 110 ára
Þann 1. mars sl. voru 110 ár frá því að Reykjanesviti, uppáhaldsviti íslensku þjóðarinnar, var tekinn í notkun. Reykjanes Geopark hefur í nokkur ár unnið að bættri aðkomu að Reykjanesvita og nágrenni, m.a. með því að deiliskipulegg ja svæðið, auglýsa lausa lóð fyrir þjónustumiðstöð og færa bílastæði nær Reykjanesvita. Í sumar verður umhverfi vitans lagfært og lagður göngustígur upp að vitanum. Í allri hönnunarvinnu var horft til þess að lega og ásýnd falli sem best að Bæjarfellinu en það er í dag illa farið eftir umferð allt árið um kring. Þá munu Hollvinasamtök Reykjanesvita koma fyrir afsteypu af skjaldarmerki Danakonungs á vitanum í sumar. Vitinn skartaði skjaldarmerkinu í rúm 60 ár og þótti á sínum tíma mikilvæg viðurkenning hans á mannvirkinu.

Nýtt deiliskipulag fyrir Garðskaga
Um 300.000 gestir heimsóttu Garðskaga árið 2017 og er áningarstaðurinn sá vinsælasti innan Reykjanes Geopark. Í gildi er deiliskipulag frá 2004 sem gerir ekki ráð fyrir þeim fjölda ferðamanna sem heimsækir svæðið í dag. Fyrr á árinu hófst vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Garðskaga sem miðar að því að gera ferðaþjónustu, vitunum tveimur, norðurljósum og fuglalífi hátt undir höfði.