Framkvæmdir í fullum gangi
Vinna við annan áfanga tvöföldunar Reykjanesbrautar er í fullum gangi þessa dagana. Unnið er við 12 kílómetra langan kafla sem nær inn að afleggjaranum að Höfnum og miðar verkinu vel.
Þessa dagana er nokkuð um sprengingar við Grindavíkurafleggjara þar sem unnið er að gerð mislægra gatnamóta. Efnið sem til fellur þar er notað í fyllingu vegarins. Nú í byrjun vikunnar voru sprengd 14 tonn af sprengiefni í einni sprengingu sem losuðu 20.000 rúmmetra af fyllingarefni. Svo öflug var sprengingin að hún kom fram á jarðskjálftamælum.
Mynd: Stórvirkar vinnuvélar á fullum snúning og mikið grjót eftir öflugar sprengingar er ásýnd sem einkennir framkvæmdirnar á Reykjanesbraut þessa dagana. VF-mynd: jbo.