Framkvæmdir hafnar við umbætur raflagnakerfis
Fyrsta skóflustungan í endurnýjun raflagnakerfis á Keflavíkurflugvelli var tekin á föstudag. Það var Hitaveita Suðurnesja sem sá um það í kjölfar kynningarfundar um verkið, en skv. lögum sem sett voru á síðasta ári skal rafkerfi á umráðasvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar vera samræmt íslenskum kröfum ekki síðar en 1. október 2010.
Fyrsti áfangi verksins er endurnýjun rafdreifikerfis á iðnaðarhluta svæðisins, en einnig er áætlað að taka hluta íbúðarsvæðis í þeim áfanga. Fyrsta áfanga verksins mun vera lokið í september og er ráðgert að eldra rafdreifikerfi iðnaðarsvæðisins verði aftengt þann 14. nóvember þessa árs.
Í beinu framhaldi verður farið í vinnu við aðra hluta svæðisins og verður verkið unnið samfellt til verkloka.
Í fréttatilkynningu kemur fram að undirbúningsvinna hafi staðið yfir undanfarna mánuði, en Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar, í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur séð um hönnun nýja rafdreifikerfisins. Framkvæmd verksins mun vera í höndum Íslenskra Aðalverktaka.
VF-myndir/Þorgils - Frá skóflustungunni og kynningarfundinum.
VF-myndir/Þorgils - Frá skóflustungunni og kynningarfundinum.